143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

störf fjárlaganefndar.

[15:14]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra um að fjáraukalagafrumvarpið megi bíða. En svo veltir maður því fyrir sér hverjir það eru sem ætla að leggja fram breytingartillögurnar við 2. umr. Fulltrúar meiri hlutans í fjárlaganefnd vita ekki neitt um það hvenær það verður lagt fram eða hvað þar virðist eiga að vera. Að minnsta kosti var því svarað þannig í morgun, bæði af þingmanni og aðstoðarmanni ráðherra, sem þar sat, og formanni fjárlaganefndar, að þau vissu ekkert um það. Ég er ekki sammála því að þetta þurfi og þetta hefur ekki gerst í held ég ein 30 ár, utan 2008, að fjáraukalögin hafi ekki verið afgreidd fyrr. Þrátt fyrir að tekjuöflunarfrumvörpin hafi komið seint fram á stundum er nú liðinn um það bil mánuður síðan hefðbundin afgreiðsla hefði átt að fara fram á fjáraukanum.

Er það ríkisstjórnin (Forseti hringir.) sem ætlar að leggja fram í heild sinni breytingartillögurnar í næstu viku, þá er ég að meina við 2. umr. fjárlaga? (Forseti hringir.) Nefndadagarnir eru nefnilega undir.