143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

störf fjárlaganefndar.

[15:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég geri engan ágreining um það að best væri ef fjáraukalagafrumvarp væri komið fram og best væri ef það væri nú þegar afgreitt. Ég tel hins vegar að það eigi ekki að standa frekari vinnu við fjárlög næsta árs fyrir þrifum að við skulum vera seint á ferðinni með það frumvarp en til stóð.

Varðandi 2. umr. fjárlaga er það alveg skýrt að málið er á forræði þingsins og það er til meðferðar í nefndinni þannig að það verður á endanum nefndin, eftir atvikum meiri hluti hennar, sem mun mæla fyrir breytingum á fjárlagafrumvarpinu. Eins og venja er mun fjármálaráðuneytið eftir samráð við öll fagráðuneyti leggja fram fyrir meiri hluta nefndarinnar hugmyndir sínar að breytingum sem verða teknar til meðferðar þar innan dyra. Þetta er nákvæmlega eins og verkið hefur verið unnið fram til þessa (Forseti hringir.) en málið allt í heild sinni er á forræði fjárlaganefndar.