143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

framkvæmdir við Vestfjarðaveg nr. 60.

[15:26]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og að vekja athygli á þessu mikilvæga máli hér á þingi, sem reyndar hefur oft komið áður til umræðu. Viðmiðanirnar eru þær að vilji stendur til að standa við samgönguáætlun eins og hún er lögð fram hvað varðar þennan mikilvæga hluta af samgöngum á Vestfjörðum.

Ég hef áður sagt það hér að ég tel að sú breyting sem þetta mundi fela í sér sé kannski ein af stærstu samgöngubótum sem við getum boðið upp á hér á landi vegna þess að það skiptir svo miklu máli fyrir Vestfirðina að ná þessum árangri og að tryggja að þessi samgöngubót sem allt of lengi hefur verið beðið eftir verði að veruleika.

Það er hins vegar ekki alveg rétt þegar sagt er að því hafi alfarið verið hafnað eða málinu sé lokið hvað varðar skoðun á vegstæði í gegnum Teigsskóg. Að hluta til hefur verið komið með þá niðurstöðu að þetta sé nákvæmlega sambærilegt fyrri leiðum en það á eftir að fara í gegnum fullnaðarvinnu í því enda voru það drög af hálfu Vegagerðarinnar sem lögð voru fram núna síðla sumars, svo að það komi fram.

Mín afstaða hefur verið alveg ljós. Ég tel að það eigi að leggja vegstæðið með þeim hætti sem Vegagerðin hefur lagt til og hefur verið fyrsti kostur íbúa á svæðinu. Ég hefði talið að það væri farsælast, það væri öruggasta leiðin og ég tel einnig að komið hafi verið mjög til móts við umhverfissjónarmið þar og vegurinn hafi verið lagfærður þannig að hann vinni betur með nágrenninu og umhverfinu á svæðinu. Mín von er enn þá sú að það takist og ég vona að við fáum svör við því sem allra fyrst.

Hvað varðar samgönguáætlun almennt er hún í vinnslu hjá samgönguráði. Samgönguráðherra fær samgönguáætlun eða tillögu að henni fyrir næstu fjögur ár núna fyrir áramót og síðan fyrir tólf ár eftir áramót. Ég vona innilega að sá þáttur sem hv. þingmaður nefnir verði í þeirri áætlun.