143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

framkvæmdir við Vestfjarðaveg nr. 60.

[15:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður nefnir um mikilvægi málsins og hversu mikilvægt þetta er fyrir atvinnuuppbyggingu og lífsgæði á þessu svæði.

Varðandi það hvort fjármögnun sé tryggð þá er gert ráð fyrir þessu verkefni eins og hv. þingmaður þekkir í samgönguáætlun. Við höfum reynt að stefna að því að halda því eins óbreyttu og mögulegt er. Ég get hins vegar ekki annað en deilt þeim ákveðnu áhyggjum sem margir hafa af fjármagni til samgöngumála að því leyti, eins og allir vita, að við erum að hagræða og spara á öllum sviðum og Vegagerðin er þar ekki undanskilin. Það þarf sjálfsagt að reyna að vinna með þetta tímabil sem er næstu fjögur ár og hugsanlega breyta að einhverju leyti framkvæmdum sem lúta að verkefnum sem áður hafa verið áformuð vegna þess að fjármagn getur hugsanlega dreifst eitthvað öðruvísi en við sáum fyrir okkur. Það er hins vegar alveg ljóst og hefur verið ljóst í mínu máli og ég held af hálfu ríkisstjórnarinnar allrar og ég er sannfærð um að þetta verkefni er forgangsverkefni.