143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

uppbygging fjölsóttra ferðamannastaða.

[15:33]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Það er algjörlega rétt sem þingmaðurinn bendir á, þetta er brýnt úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir varðandi þá fjölgun ferðamanna sem við höfum orðið vitni að hér á undanförnum árum. Það er einmitt þess vegna sem ráðist hefur verið í það verkefni sem þingmaðurinn nefndi, að finna framtíðarfyrirkomulag þeirra mála. Vinna er farin af stað í miklu og góðu samráðsferli allra hlutaðaeigandi hagsmunaaðila við að finna farveg til þess að útfæra svokallaðan náttúrupassa eða ferðakort.

Viðfangsefnið er eiginlega þríþætt. Það þarf að vernda náttúruna, vernda vöruna sem ferðamennirnir koma hingað til þess að sjá, það þarf að dreifa álaginu og fjölga fjölförnum ferðamannastöðum með því að byggja upp á fleiri stöðum, og tryggja þarf öryggi ferðamannanna. Það er alveg rétt sem bent er á að til þess þarf fjármagn. Ég get hrósað síðustu ríkisstjórn fyrir að hafa gefið verkefninu gaum. Það voru lagðir frekari fjármunir í þetta á síðasta kjörtímabili og var ekki vanþörf á. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir núna er að þeir auknu fjármunir sem komu inn vegna fjárfestingaráætlunarinnar eru sama marki brenndir og önnur þau góðu verkefni sem þar voru, það var ekki fjármögnun að baki.

Því ætlum við að ráða bót á núna. Það er rétt að forsvarsmenn í ferðaþjónustunni hafa bent á að örðugt gæti verið að koma þessu að fullu til framkvæmda á næsta sumri. Ég hef sagt að við munum ekki fórna afurðinni og vandvirkninni við þetta verkefni fyrir tímasetninguna. Ég get að sjálfsögðu (Forseti hringir.) fullvissað hv. þingmann um að árið 2014 verður ekki ár glataðra tækifæra í því efni vegna þess (Forseti hringir.) að þetta eru brýn verkefni sem við munum að sjálfsögðu standa skil á.