143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

uppbygging fjölsóttra ferðamannastaða.

[15:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er hughreystandi og ég hlýt þá að skilja það svo að hæstv. ráðherra geri sér vonir um að fá inn í fjárlög umtalsverðar viðbótarfjárveitingar, því að það er alveg augljóst mál af því sem hér er sagt að það verða engar tekjur með öðrum hætti til ráðstöfunar á næsta ári. Það verður enginn náttúrupassi farinn að skila tekjum hér á vordögum þegar þörfin er fyrir að nota sumarið til framkvæmda. Það munar um minna en það ef 750 milljónir hverfa út úr þessu og eftir verða einhverjir aurar í formi gistináttagjalds, sem er auðvitað ekki neitt neitt.

Ég er því órólegur þrátt fyrir falleg orð hæstv. ráðherra. Ég vil sjá eitthvað hér á borði, alla vega áður en við lokum fjárlögunum, um að þetta fari ekki aftur á bak með þeim hætti sem annars virðist stefna í. Þörfin er gríðarleg, það er öllum ljóst. Umsóknirnar í Framkvæmdasjóð ferðamála endurspegluðu það að úti um allt land er þörf á stuðningi við margvísleg verkefni. Sum þeirra eru að fara af stað á grundvelli fyrstu fjárveitinganna. (Forseti hringir.) Þau munu stöðvast, þau munu ekki komast áfram á fallegum orðum. Þau þurfa fjárstuðning.