143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

málefni RÚV.

[15:56]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég ræddi á dögunum við leikara sem tók þátt í sjónvarpsgerð fyrir danska Ríkisútvarpið, nánar tiltekið sjónvarpsþáttinn Örninn. Áður en sú upptaka hófst og menn byrjuðu að vinna að þeim þætti mætti danski sjónvarpsstjórinn og útskýrði fyrir þáttagerðarmönnunum hvað væri verið að gera með þessum þætti. Þeir ætluðu að skemmta Dönum með því að mennta þá. Þeir mundu gera það í framhaldinu með alls kyns þáttum og það höfum við séð, m.a. hér á landi í mjög vandaðri dagskrárgerð sem birtist okkur í Glæpnum, Borginni og Brúnni sem allir horfa á. Mér finnst þetta góð stefna.

Mér finnst þetta vera nokkuð sem við mættum taka okkur til fyrirmyndar og nokkuð sem við þurfum að ræða áður en við förum að tala um 200 milljónir til eða frá og ákveða hvað við ætlum að gera með Ríkisútvarpinu. Mér finnst vont að þetta sé ákveðið og birt sé stefna með því að draga úr fjárframlögum, með því að maður rýni í fjárlögin og reyni að lesa úr þeim hvert sé stefnt með Ríkisútvarpið. Það er ekki hægt að sjá annað á fjárlögunum en að ríkisstjórnin hafi ákveðið að minnka Ríkisútvarpið. Þá vill maður vita: Hvernig Ríkisútvarp ætlum við að hafa? Það þurfum við að ræða.

Við þurfum auðvitað líka, vegna þess að þarna er starfsemi í gangi, að vinna út frá þeim veruleika sem blasir við starfsfólkinu. Allir sem þekkja til fjölmiðlareksturs á Íslandi vita að frá því í júní á þessu ári hefur auglýsingamarkaðurinn verið botnfrosinn. Það er lítið að gerast þar, eftir litlu að slægjast. Ef hæstv. ráðherra ætlar að draga til baka hinar svokölluðu átta mínútna takmarkanir í staðinn fyrir þessar 200 milljónir sem áður er búið að taka af Ríkisútvarpinu þá er hann bara að koma með 80 milljónir inn. Hann verður að útskýra það í þessari umræðu hvaða tekjur eiga að koma þarna inn. Annars er bara verið (Forseti hringir.) að taka handahófskenndar ákvarðanir um rekstur án þess að nokkurt innihald eða stefna liggi þar að baki.