143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

málefni RÚV.

[15:58]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Það er mikið talað um nauðsyn þess að forgangsraða í ríkisrekstri, að við setjum peningana í ákveðna grunnþjónustu sem flestir geta verið sammála um að sé nauðsynleg. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir framlagi upp á um 3,5 milljarða króna til reksturs Ríkisútvarpsins. Þá fær RÚV heimild til að afla meiri tekna á auglýsingamarkaði í samkeppni við einkastöðvar. Rekstrarskilyrði á fjölmiðlamarkaði eru mjög erfið og hafa verið erfið svo lengi sem ég man eftir.

Það er í því umhverfi sem við verðum að skoða framtíðarhlutverk Ríkisútvarpsins sem rekur í dag tvær útvarpsrásir, sjónvarpsrás og útibú víða um land. Er það réttlætanlegt á sama tíma og við erum með nánast ónýtt heilbrigðiskerfi? Er réttlætanlegt að halda til dæmis Rás 2 úti sem spilar fyrst og fremst dægurtónlist í samkeppni við einkastöðvar á sama tíma og við höfum ekki efni á að kaupa lífsnauðsynleg tæki fyrir Landspítalann? Má ekki einfaldlega selja Rás 2, stytta útsendingartíma Rásar 1 og sjónvarpsins og eyrnamerkja peningana sem fást tækjakaupum fyrir Landspítalann?

Hvar er forgangsröðunin? Hvort skiptir okkur meira máli að hlusta á dægurtónlist á Rás 2 eða bjarga mannslífum? Auðvitað er þetta angi af stærra máli. Einhverjir vilja eflaust ganga lengra og spyrja hvort ég vilji að Þjóðleikhúsinu verði lokað o.s.frv. Svarið er nei. Menning er nauðsynleg. Við eigum að hlúa að menningarhlutverki RÚV, líka að fréttastofunni hvað sem hver segir. Það þýðir hins vegar ekki að ekki megi draga úr og spara. Þar eigum við að horfa til hluta eins og Rásar 2. Einkaaðilar sinna hlutverki hennar mjög vel og það sama gildir um ameríska sápuóperu og annað slíkt.