143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

málefni RÚV.

[16:00]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég verð að viðurkenna að ég er svo einföld að ég trúi því þegar mér er sagt að settur sé á svokallaður nefskattur og að sá skattur eigi að renna til þeirrar stofnunar eða þeirrar þjónustu sem nefin eru sett á. Ég skil þá ekki hvernig hægt er að ráðskast með nefskattinn. Á hann ekki bara að vera fyrir þá sem manni er sagt að hann sé tekinn fyrir? Er þetta ekki einhver aukaskattur sem við borgum? Ég skil þá ekki hvernig hægt er að ráðstafa honum á einhvern annan hátt.

Getur hæstv. ráðherra kannski útskýrt fyrir mér hvort þetta er eðlilegt og af hverju þetta er gert svona? Ég veit að það hefur verið gert áður með þennan tiltekna skatt. Loksins átti að koma þessum málum í rétt horf en síðan er vikið frá því og það truflar mig.

Mig langar jafnframt að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki væri upplagt, fyrst það á að afnema takamarkanir, að hið sama mundi þá gilda um vef RÚV. Það verður að viðurkennast að fréttavefur RÚV er hvorki fugl né fiskur. Það er einfaldlega út af því að það má ekki auglýsa þar, það eru engar tekjur og þar af leiðandi er RÚV ekki einn af toppunum í fréttum á netinu, sem mér finnst miður. Ég les gjarnan BBC, sem mér finnst frábær vefur, og sú þjónusta er alveg jafn mikilvæg og útsendingar. Mig langaði því að spyrja hæstv. ráðherra ef hann hefur tíma til þess að hlusta, en hann hefur verið að tala við annan þingmann allan tímann sem ég hef rætt þetta hér, sem mér finnst miður. (Gripið fram í.) Þá vona ég að hæstv. ráðherra svari þessum spurningum: Af hverju er verið að nota nefskatt RÚV (Forseti hringir.) í eitthvað annað? Er ekki tilefni til að tryggja að vefur RÚV fái að þróast með auglýsingatekjum?