143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

málefni RÚV.

[16:03]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að mikilvægt sé að varpa aðeins fram pólitísku samhengi hlutanna og pólitískri stöðu RÚV í gegnum tíðina. Því miður hefur það oft verið raunin í gegnum söguna að Ríkisútvarpið hefur glímt við pólitíska andstöðu og þá sérstaklega atlögur og andúð sumra sjálfstæðismanna. Sumir talsmenn flokksins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins hafa verið öflugir í því að undanförnu og sagt það fullum fetum að miðilinn ætti að leggja niður. Þá veltir maður fyrir sér þeim aðgerðum sem hér eru ræddar í því samhengi og vil ég sérstaklega nota tækifærið og biðja hæstv. ráðherra að bregðast við því að í dagbókarfærslu Björns Bjarnasonar, sem er mikill áhugamaður um pólitískt samhengi, í sumar segir, með leyfi forseta:

„Þegar ég gegndi embætti menntamálaráðherra máttu framsóknarmenn ekki heyra orðinu hallað um ríkisútvarpið og stóðu gegn öllum róttækum breytingum á því. Nú nær óánægja með stofnunina langt inn í þingflokk framsóknarmanna og sumir ná vart andanum vegna reiðilegra ummæla Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, um útvarpið. Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er í forustu fyrir fésbókarsíðu til eftirlits með ríkisútvarpinu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skrifaði harða ádeilugrein á Ríkisútvarpið í Morgunblaðið.

Hér er um sögulega pólitíska þróun að ræða sem ber með sér að núverandi stjórnendum Ríkisútvarpsins hefur tekist að skapa sér óvild innan stjórnmálaflokks sem fyrir fáeinum árum mátti ekki heyra á það minnst að hróflað yrði við Ríkisútvarpinu.“

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er það svo að Sjálfstæðisflokkurinn hefur eignast liðsauka í því að standa fyrir atlögu að Ríkisútvarpinu? Er Ríkisútvarpið í hættu í höndum hæstv. menntamálaráðherra? Ber að skoða þá aðgerð sem hér er rædd sérstaklega að því er varðar auglýsingamarkaðinn í þessu pólitíska samhengi?