143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

málefni RÚV.

[16:05]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að gera eins og hv. þm. Róbert Marshall og óska Kastljósi til hamingju með þá viðurkenningu sem það hefur hlotið. (Gripið fram í: Guðbjartur Hannesson.) — Guðbjartur Hannesson — ég biðst afsökunar á þessu — með þá viðurkenningu sem Kastljós hefur hlotið fyrir umræðu um mikilvægt mál sem snýr að kynferðislegu ofbeldi.

Í öðru lagi langar mig til þess að ræða það hér að þegar hæstv. þáverandi menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir kom fram með sérlögin um Ríkisútvarpið á síðasta kjörtímabili kom þar fram sú nýjung að þær mörkuðu tekjur sem þar voru ættu allar að renna til Ríkisútvarpsins, að nefskatturinn allur ætti að renna til Ríkisútvarpsins. Á sama tíma voru menn í fjárlaganefndinni að vinna að frumvarpi til þess að afnema markaðar tekjur. Gjörð hæstv. ráðherra fór því gegn því sem verið var að vinna að í fjárlaganefnd. Það náði hins vegar ekki fram að ganga að koma fram með frumvarp sem afnam markaðar tekjur, þannig að þetta var nýjung hjá þáverandi hæstv. ráðherra.

Það var líka forvitnilegt að heyra hér frá fjölmiðlamanninum Róberti Marshall, nú hv. þingmanni, að þessi lækkun úr tólf mínútum í átta hefði ekki skipt neinu máli. Ríkisútvarpið taldi sig missa um 300 milljóna tekjur í þessari lækkun, en þeir á hinum kantinum, einkafjölmiðlarnir, sögðu að það væri rangt vegna þess að Ríkisútvarpið hefði aldrei getað fullnýtt þessar tólf mínútur. Síðan kemur fram í máli fjölmiðlamannsins fyrrverandi, hv. þm. Róberts Marshalls, að sú er staðreyndin. Nú hlýtur að koma í ljós hvort Ríkisútvarpið, sem mælti gegn því að þessar mínútur yrðu færðar til, hefur þann slagkraft á auglýsingamarkaði sem það taldi að það hefði til að geta nýtt sér tólf mínúturnar og hala inn þær 300 milljónir sem þeir töldu að þeir misstu við þessa breytingu.