143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki í þessu stutta andsvari að svara öllum þeim atriðum sem komu fram í ræðu hv. þingmanns. Ég mun reyna að gera það hér á eftir eftir því sem tilefni er til.

Það er eitt atriði sem ég vildi vekja athygli á þar sem mér fannst gæta nokkurs misskilnings í ræðu hv. þingmanns og raunar í ýmsum ræðum sem hér hafa verið haldnar undanfarna daga um þetta mál. Það er að samkomulagið sem gert var um málsmeðferð varðandi afgreiðslu þessa frumvarps á síðasta þingi hafi falið í sér efnislega niðurstöðu af hálfu okkar sem þá vorum í stjórnarandstöðu. Ég held að ég hafi að minnsta kosti aldrei verið neitt að draga fjöður yfir það að ég teldi að sú frestun á gildistöku sem ákveðin var á lokastigum málsins, frestun á gildistöku til 1. apríl 2014, væri einmitt til þess gerð að gefa nýjum þingmeirihluta ráðrúm til þess að fara yfir málið, breyta því, vinna það öðruvísi en sá meiri hluti sem hér á síðasta þingi lagði upp með. Ég hygg að komið hafi fram bæði í ræðum hjá mér og atkvæðaskýringum að svo væri. Ég tel nokkuð ljóst að talsmenn Framsóknarflokksins hafi talað á sama veg.

Ég held að það ætti ekki að koma þingmönnum á óvart að nýr þingmeirihluti og ný ríkisstjórn nálgist málið á annan hátt en fyrri ríkisstjórn gerði að þessu leyti. Það hefði, eins og hæstv. ráðherra rakti í upphafi umræðunnar, verið hægt að gera það með ýmsum hætti. Það hefði verið hægt að fara nú þegar í breytingar, en hann velur þá leið að leggja til að lögin verði felld úr gildi. Það þýðir hins vegar ekki í mínum huga að vinnu við þau mál sé lokið, heldur að menn ætli að nálgast og byrja frá nýjum punkti. (Forseti hringir.)