143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Ég efast ekkert um að menn hafi ekki allir nálgast málið eins í samkomulaginu sem gert var í vor, en þeir fóru samt í þá vinnu að gera efnislegar breytingar á frumvarpinu. Ég reikna með að í því felist einhver meining og vilji að því var breytt efnislega. Ef menn hefðu ekki ætlað sér að standa með þeim breytingum sem þar voru gerðar hefðu þeir bara getað látið frumvarpið fara í gegn og hugsað: Við ætlum að gera breytingar, eða sá meiri hluti sem verður eftir kosningar, og við höfum til þess rúman tíma.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni í því að eðlilegt sé að meiri hluti hverju sinni skoði svona stór mál. Þarna var gefinn rúmur frestur til þess. Þess vegna tel ég að menn eigi að nýta þann mikla tíma sem er til staðar. Við erum búin að missa þó nokkuð marga mánuði frá því í vor, sá tími hefur ekki verið nýttur til að skoða hugsanlega þætti sem mætti slípa betur til til að ná breiðari sátt. Við höfum samt tíma til 1. apríl á næsta ári til að skoða þetta í nefndinni, vinna þá vinnu og hafa til þess rúman tíma, kalla til aðila fyrir nefndina og fara vel yfir hvort þarna sé eitthvað sem hægt er að slípa betur til, en fara ekki út í það verk sem ég tel vera óðs manns æði, að afturkalla lögin. Það er alvarleiki málsins.