143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:54]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Því er haldið mikið fram í umræðunni, sérstaklega af hæstv. ráðherra, að þetta mál hafi verið mjög umdeilt og vissulega var það það, um það voru deildar meiningar. En ég vil líka rifja það upp hérna að það var að svo mörgu leyti komið til móts við þau sjónarmið sem hreyft var við og þær umsagnir sem komu fram. Í gær gafst mér tóm til þess að rifja aðeins upp ferli þessa máls í gegnum umhverfis- og samgöngunefnd á síðasta kjörtímabili og hér eru breytingartillögur á sex blaðsíðum sem nefndin gerði í umfjöllun sinni við frumvarpið. Það er röð af mjög afgerandi og umtalsverðum breytingum sem gerðar voru á frumvarpinu í ljósi umsagna og umfjöllunar í nefnd en það er líka gagnlegt að rifja upp til dæmis þær undirskriftasafnanir sem fram fóru gegn þessum lögum sem safnað var á vef Ferðafrelsis. Mikill fjöldi fólks skrifaði þar gegn lögunum en á grundvelli mjög misvísandi upplýsinga.

Mig langar til þess að rifja upp nokkrar slíkar. Til dæmis sagði þar á þeim vef, með leyfi forseta:

„Vissir þú að ef nýju náttúruverndarlögin fara í gegn óbreytt verður, með lokun leiða á hálendi og láglendi lokað á ferðamöguleika þeirra sem ekki geta gengið um landið með allan sinn farangur á bakinu? Getur þú gengið með þungar byrðar, 20 kílómetra leið í óbyggðum?“

Þetta er nú eitt dæmi um þann málflutning sem var gegnumgangandi í umfjöllun um þetta mál. Þetta er auðvitað alrangt, það er engum vegslóða lokað með frumvarpinu.

Önnur athugasemd af þessu tagi hljómar svona, með leyfi forseta:

„Vissir þú að ef nýju náttúruverndarlögin fara í gegn óbreytt getur þú fengið sekt fyrir utanvegaakstur þótt þú akir á vegslóða, þ.e. ef viðkomandi leið hefur ekki ratað inn í vegagagnagrunn ríkisins? Stangveiðimaður að aka“ meðfram á upp að veiðistað „væri þá til dæmis að brjóta lög um utanvegaakstur.“

Þetta er auðvitað mikill misskilningur. Allir vegslóðar áttu að vera greindir í samstarfi ráðuneytis og viðkomandi sveitarfélaga og gerð var tillaga um hverja þeirra skuli heimilt að aka á vélknúnum ökutækjum með eða án takmarkana.

Önnur svona athugasemd sem mig langar til að rifja upp hljómar svona, með leyfi forseta:

„Vissir þú að ef nýju náttúruverndarlögin fara í gegn óbreytt er ráðherra umhverfismála veitt vald til að banna vetrarumferð á ákveðnum stöðum ef einhverjum finnst hann vera ónáðaður af vélarhljóði? Býður þetta ekki upp á misnotkun?“

Þetta er líka ágætisdæmi um algjöran misskilning á frumvarpinu og afflutning á því sem þar stóð, að ekki sé nú talað um að í núgildandi lögum getur ráðherra í reglugerð bannað akstur á jöklum og á snjó þar sem hætta er á náttúruspjöllum eða óþægindum fyrir aðra sem þar eru á ferð, þannig að það var engin breyting gerð á þessari grein.

Ég haldið lengi áfram að telja upp alls kyns misvísandi og mjög svo gildishlaðnar og rangar fullyrðingar um efni frumvarpsins sem síðan voru notaðar til þess að safna undirskriftum og afla því sjónarmiði stuðnings að það væru arfavond lög sem þarna væru á ferðinni. Meðal annars var gerð athugasemd við það að ekki hefði verið veittur nægur umsagnartími, en það er af og frá, mér er til efs að það hafi nokkurn tímann verið tryggt jafn umfangsmikið ferli þar sem almenningur og hagsmunasamtök höfðu tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum.

Mig langar hérna rétt í restina, af því að tíminn er af skornum skammti, að rifja upp eina fullyrðinguna þar sem fjallað var um umferð gangandi manna. Þar var því haldið fram að boðið væri upp á þann möguleika að takmarka umferð gangandi fólks um landsvæði og það væri í fyrsta skipti sem það gerðist í löggjöf á Íslandi. Það er alveg kolrangt. Það var hins vegar verið að laga þá grein sem fjallar um almannaréttinn og rétt okkar til þess að fara um landið og gera hana mun betur afmarkaða en gert er í núgildandi lögum. Mér tekst vonandi að koma betur inn á það atriði (Forseti hringir.) í framhaldsmeðferð þessa máls.