143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög mikilvæga yfirferð. Hann er einn þeirra sem voru í nefndinni við úrvinnslu málsins á lokametrunum og kemur mjög skýrt fram í máli hans að verulega hafi verið komið til móts við athugasemdir og sjónarmið við umfjöllun nefndarinnar og líka þær rangfærslur sem voru vísvitandi notaðar til þess að vinna málinu skaða í umræðunni úti í samfélaginu og hér inni í þingsölum.

En mig langar til að biðja hv. þingmann að bregðast við þeim orðum sem hafa komið fram í bloggfærslu fyrrverandi hv. þm. Marðar Árnasonar, sem var framsögumaður málsins, þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Það var athyglisvert við umfjöllun um lagafrumvarpið í umhverfisnefnd að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru aldrei tilbúnir til neins konar umræðu eða samningsumleitana um niðurstöðu mála. Þeir höfðu ekkert fram að færa í umræðu um akstur utan vega. Þeir hvorki tóku undir bollaleggingar skógarmanna né andæfðu þeim. Og þegar til átti að taka vildu þeir ekki setjast niður til að athuga samningsfleti á ákvæðunum um „sérstaka vernd“.“

Þetta er mjög skýrt talað hjá fyrrverandi hv. þm. Merði Árnasyni. Mér finnst þetta áhugavert, sérstaklega í ljósi þess að menn láta hér eins og að á lokametrunum hafi þeir orðið undir, þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að því er varðar einhver efnisleg álitamál og efnisleg ágreiningsmál. Ég hafði þá tilfinningu sem ráðherra málaflokksins að meira væri verið að beita afli í svona hefðbundnum stjórnarandstöðustíl til að grilla málið, ef svo má að orði komast, þetta hafi aldrei í raun og veru snúist um efnisleg atriði máls. Mig langar til að biðja hv. þingmann að bregðast við þessum vangaveltum.