143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ágæta ræðu hans um dagskrármálið og vil byrja á að taka undir það með þingmanninum að orðið „hugsjón“ er auðvitað eitt af fegurstu orðum íslenskrar tungu og sannarlega er enginn einn stjórnmálaflokkur eða tveir eða þrír hér í þinginu sem eiga einkarétt á því fallega orði. Menn í öllum flokkum eiga sér hugsjónir, það er hverjum manni ljóst.

Ég kem hér sem þingflokksformaður í aðra röndina og verð að árétta fyrir fjarstadda þingmenn mína að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir kallar hlutina bara sínum réttu nöfnum. Þess vegna er það sem hún hefur látið að sér kveða í þjóðmálum þannig að eftir hefur verið tekið, og ég held að hv. þingmaður eigi nú að hafa áhyggjur af fylgi einhverra annarra flokka en Samfylkingarinnar í Hafnarfirði miðað við orð hans um hv. þm. Margréti Gauju Magnúsdóttur.

Ég vil hins vegar spyrja þingmanninn, vegna þess að hann segir, sem rétt er, að framsóknarmenn séu margir náttúruverndarsinnar, og að mikilvægt sé að skapa sátt um það mál sem hér er á ferðinni, hvort hann geti ekki verið mér sammála um að það væri gæfulegri aðferð við að leita eftir frestun á gildistöku annaðhvort laganna í heild sinni eða einstakra ákvæða meðan unnið væri að endurskoðun þess frumvarps, sem samþykkt var á vordögum, fremur en með því að hefja sáttina á því að taka vinnu alls þess fólks sem að þessu máli hefur komið og henda í ruslakörfuna.