143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svör hans. Ég vil spyrja hann hvort honum finnist það ekki vera nauðsynlegt að allt það fólk sem kom að þeirri vinnu fái aftur að koma að nýju lagafrumvarpi sem væntanlegt er og hvort honum finnist ekki stangast á orð hv. formanns umhverfis- og samgöngunefndar og hæstv. umhverfisráðherra. Getur hvort tveggja farið saman, að hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar vill vinna málið áfram í nefndinni en hæstv. ráðherra vill leggja fram lagafrumvarp?

Og telur hv. þingmaður það góð vinnubrögð, segjum sem svo að hér komi vinstri sinnuð, umhverfissinnuð ríkisstjórn, kannski á næsta ári, að hún rífi upp með rótum og hendi fyrir róða þeirri vinnu sem unnin hefur verið í ráðuneytum og verið lögð hér fram? Fyndist honum það rétt? Á þá næsta stjórn að henda bara næsta lagafrumvarpi um náttúruvernd fyrir róða og byrja upp á nýtt, ping-pong?