143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem hér er til umræðu er í efni sínu afskaplega einfalt. Það gengur út á að breytt lög um náttúruvernd sem samþykkt voru sl. vor, örskömmu fyrir kosningar, verði afnumin. Í orðum hæstv. ráðherra og annarra sem hér hafa tjáð sig hefur komið skýrt fram að með því er ekki ætlunin að staðar verði numið heldur að haldið verði áfram endurskoðunarvinnu varðandi náttúruverndarlög með það að markmiði að ná víðtækari sátt en tókst í vor.

Margt hefur verið sagt í þessari umræðu og sumt byggir að mínu mati á talsverðum misskilningi. Ég reyndi t.d. í andsvari áðan að leiðrétta þann misskilning að niðurstaða málsins, eins og varð á þingi í vor, hefði byggst á efnislegu samkomulagi um innihald málsins. Svo var ekki. Það var samkomulag um málsmeðferð því að hlutir voru komnir í ákveðið óefni. Samkomulagið gekk út á það að gildistöku laganna var frestað til 1. apríl á næsta ári, og ekkert farið í felur með það af minni hálfu og fleiri þingmanna, til að gefa hugsanlegum nýjum meiri hluta á þingi ráðrúm til að koma að breytingum á þeim lögum sem um var að ræða. Ég get alveg upplýst að við sem sátum í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili töldum að það þyrfti lengri tíma en til 1. apríl 2014 til að ná niðurstöðu um það mál. Ég hygg að athugun umhverfisráðherra sem fékk málið í hendur í vor hafi einmitt leitt hið sama í ljós. Því er hér lagt til og því styð ég það sem hæstv. ráðherra leggur til að farin verði sú leið að í staðinn fyrir að reyna að keppast við að endurskoða lagaákvæðin fyrir 1. apríl þá verði lögin sem samþykkt voru sl. vor afnumin en engu að síður verði vinnu haldið áfram á grundvelli þeirra markmiða sem getið er um í frumvarpinu.

Sagt hefur verið í þessari umræðu að að mörgu leyti hafi verið komið til móts við athugasemdir sem fram komu við málið á síðasta kjörtímabili. Það er rétt, það var komið til móts við ýmsar athugasemdir, alls ekki allar og í mörgum tilvikum gengið frekar skammt til móts við þær athugasemdir sem gerðar höfðu verið, en það er alveg rétt að gerðar voru ýmsar breytingar til bóta á frumvarpinu á lokametrunum í vor. Þar sem slík niðurstaða náðist og þar sem slík niðurstaða endaði í sátt er þar auðvitað um að ræða hluti sem hægt er að byggja á. Í öðrum tilvikum var enn þá töluvert langt á milli og ég tel að það sé rétt að undir forustu hæstv. umhverfisráðherra verði unnið að því að finna lausnir á þeim málum þannig að meira jafnvægi náist í endanlegri mynd þessa máls en náðist síðasta vor.

Ég held að það sé rétt að rifja það upp að athugasemdir við frumvarp hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, voru af margvíslegu tagi. Það var ekki að tilefnislausu sem þetta mál var umdeilt hér síðasta vetur. Athugasemdirnar komu frá mörgum ólíkum aðilum. Það var ekki um einsleitan hóp að ræða sem gagnrýndi frumvarpið sem um ræðir. Þá var um að ræða, eins og hv. þingmenn muna sem fylgdust með umræðunni á síðasta vetri, harða andstöðu frá Samtökum íslenskra sveitarfélaga og einstökum sveitarfélögum. Samtök íslenskra sveitarfélaga tóku harða andstöðu gegn þessu frumvarpi; það kom skýrt fram í umsögnum og umfjöllun nefndar á síðasta kjörtímabili. Einstök sveitarfélög nálguðust málið með mismunandi hætti en þau voru sammála um að málið væri ekki tilbúið til afgreiðslu og báðu eindregið um að afgreiðslu þess yrði frestað svo að frekari tími næðist til að ná samstöðu um þau atriði sem að sveitarfélögunum sneru.

Andstaða kom einnig frá bændum og öðrum landeigendum, aðilum sem raunverulega hafa í mörgum tilvikum bæði hagsmuni af nýtingu og vernd náttúrunnar. Í mörgum tilvikum byggja þau verðmæti sem bændur og landeigendur eiga einmitt á því að náttúran sé vernduð. Bændastéttin lifir auðvitað og starfar í nánari snertingu við náttúruna en flestir aðrir. Bændasamtökin og Samtök landeigenda tóku eindregna afstöðu gegn frumvarpinu.

Andstaða kom úr fleiri áttum. Andstaða kom frá samtökum í atvinnulífinu, svo sem Samtökum iðnaðarins og samtökum orkufyrirtækja. Það þarf ekki að koma á óvart vegna þess að í mörgum tilvikum var að því er virtist hugmyndin á bak við einstakar breytingar á frumvarpinu sú að þrengja að möguleikum þessara aðila til að auka starfsemi sína. Það er eðlileg togstreita. Það er eðlilegt að togast sé á um nýtingu og vernd í þessum efnum en það gerir ekki að verkum að rök eða sjónarmið sem koma fram af hálfu þessara aðila, hvort sem það er Samorka, Samtök atvinnulífsins eða aðrir slíkir, séu að engu hafandi. Það er ekki svo.

Andstaða kom líka frá útivistarfólki, mjög fjölbreyttum hópi ferðafólks. Þar var um að ræða samtök þeirra sem ferðast um landið á fjórhjóladrifnum ökutækjum, Ferðaklúbbinn 4x4 og skyld samtök, fjölmenn samtök sem í raun og veru samanstanda af fólki sem elskar íslenska náttúru og nýtur þess að ferðast um landið, ekki til að spæna upp mosaþóftir heldur til að ferðast á þessum tækjum til að njóta landsins. Þar á meðal voru líka samtök veiðimanna og ýmis áhugasamtök ferðafólks. Ég man að í umfjöllun málsins kom meira að segja fram að kajakræðarar og hjólreiðamenn teldu að að þeim væri sótt með því frumvarpi sem þarna var um að ræða. Við fengum einnig gesti á fundi nefndarinnar sem lýstu þeim sjónarmiðum.

Hafi markmið fyrrverandi hæstv. ráðherra og þess meiri hluta sem stóð á bak við hana verið að ná sátt má segja að í þeirri sátt og viðleitni var stigið á ansi margar tær. (SJS: Og andstaðan frá náttúru.) — Náttúran hefur ekki rödd, hv. þingmaður, eins og við þekkjum, en mennirnir hafa raddir og mennirnir hafa sjónarmið og löggjöf af þessu tagi (Gripið fram í: … sjálfstæðis…) snýst um að finna jafnvægi milli þess að njóta náttúrunnar, nýta náttúruna og vernda náttúruna.

Þar sem fólk lifir þar hefur maðurinn áhrif á náttúruna og ef menn ætla sér ekki að breyta Íslandi í einn allsherjarþjóðgarð þá verður að finna jafnvægi í þessu. (Gripið fram í.)Sjónarmið okkar sem stóðum gegn þessu frumvarpi á sínum tíma var að það hallaði of mikið í aðra áttina, það væri of langt gengið, of miklar skorður væru settar við ýmissi eðlilegri starfsemi mannanna og þess vegna þyrfti að leita betra jafnvægis, ekki til að fara úr hvítu í svart eða svörtu í hvítt heldur töldum við að jafnvægið væri ekki nægilega gott í þessum lögum. Við leyndum ekki þeim sjónarmiðum okkar, hvorki í þinginu þegar þessi mál voru til umræðu né í kosningabaráttunni sem fór síðan í kjölfarið. Þess vegna hljótum við sem sitjum á þingi núna fyrir núverandi stjórnarflokka að reyna að nálgast málið með þeim hætti að finna nýtt jafnvægi. Með því er ekki sagt, eins og ég nefndi í andsvari áðan, að öllu því starfi sem unnið var á síðasta kjörtímabili verði kastað fyrir róða, auðvitað ekki, alls ekki. Við höfum mikið efni sem hægt er að byggja á í því sambandi. Við teljum hins vegar að rétt sé að leita nýs jafnvægis, stilla hlutina betur af en gert var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Við viljum leita um það samráðs við sem flesta, m.a. þá aðila sem komu í röðum fyrir umhverfis- og samgöngunefnd á síðasta tímabili og lýstu því þannig að af hálfu fyrrverandi ráðherra og fyrrverandi ráðuneytis hefði samráð eingöngu falist í því að menn voru kallaðir til funda og kynnt hver niðurstaðan væri. Raunverulegt samráð er það sem við hljótum að leita í þessu sambandi.

Í sumum málum verður kannski ekki hægt að ná fullkomnu samkomulagi um niðurstöðuna en það er að mínu mati hægt að ganga mun lengra í að samræma og samþætta sjónarmið en gert var hér fyrir síðustu kosningar.