143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu. Ég held að það séu óþarfaáhyggjur af hálfu þingmannsins að til standi að breyta landinu í einn allsherjarþjóðgarð. Vegna þess að hv. þingmaður þekkir vel til efnis málsins og umfjöllunar allrar á síðasta þingi vildi ég spyrja hann um þau þrjú efnisatriði sem kannski eru mikilvægust grundvallaratriðin í málinu og um afstöðu hans til þeirra.

Það er í fyrsta lagi varúðarreglan, í öðru lagi mengunarbótareglan eða greiðslureglan og í þriðja lagi ákvæðið um sérstaka vernd. Er eitthvert þeirra ákvæða eða öll þrjú ákvæðin þannig að þau hugnist ekki þingmanninum eða stjórnmálaflokki hans eða þannig að hann eða flokkur hans muni leggjast gegn þeim í framhaldi vinnu við löggjöf á þessu sviði?