143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þess er að geta að kajakræðarar áttu aðild að Samtökum ferðafélaga sem komu til okkar og þeir höfðu áhyggjur af túlkun ákvæða sem vörðuðu almannarétt, meðal annars varðandi ferðir um fljót. Þar komu fram, eins og getið er bæði í nefndaráliti sem ég skrifaði undir og fleiri gögnum málsins, að þannig var skilið við málið á síðasta tímabili að þau sjónarmið sem komu fram annars vegar af hálfu bænda og landeigenda og hins vegar af hálfu ferðafólks fóru engan veginn saman, báðir voru óánægðir með það.

Nú kunna sumir að ætla að það sýni að niðurstaðan hafi verið góð. Ég er ekki viss um það. Ég held að í þessu tilviki hvað varðar jafnvægið í því sambandi milli annars vegar hagsmuna landeigenda og hins vegar þeirra sem ferðast um landið sé meira en einnar messu virði að reyna að ná meiri sátt en tókst á síðasta tímabili.