143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt, það eru mörg atriði í þessu þar sem ég held að málið snúist kannski frekar um útfærslu, túlkun og annað en grundvallaratriði. Það er allt rétt sem hv. þingmaður sagði um að mjög mörg af þeim ólíku samtökum og hópum sem gerðu athugasemdir við frumvarpið gerðu athugasemdir við ólíka hluti og sumir kannski bara við eitt ákvæði, aðrir við fleiri.

Ég held að ég sé ekki að gera neinum rangt með því að segja að það hafi verið nokkuð samhljóma álit þeirra sem komu fyrir nefndina og höfðu gagnrýni uppi á einstaka þætti frumvarpsins, að þeir báðu einfaldlega um meiri tíma, frekari vinnu, meira samráð en jafnvel náðist í meðförum þingsins á síðasta tímabili. Ég held að það hafi verið nokkuð samhljóma álit þessara aðila.