143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom fyrr í andsvari að væntingum sínum um að vinna málið betur á þeim fresti sem var gefinn á gildistöku laganna. Ég vil velta því upp hvernig hann sér það fyrir sér ef sú vinna fer fram, sem verður vonandi þótt seint verði, að hæstv. ráðherra komi með nýtt lagafrumvarp um náttúruvernd á sama tíma og menn eru að vinna að því í nefndinni að reyna að ná sátt og samkomulagi og skoða ákveðnar greinar. Telur hann að það eigi ekki að vera jafn ítarleg umfjöllun um lagafrumvarpið vegna þess að vinna fer fram í nefndinni við að skoða ákveðnar greinar? Telur hann ekki að nýtt lagafrumvarp þurfi mjög ítarlega umfjöllun eins og þetta lagafrumvarp fékk á sínum tíma, á að gefa einhvern afslátt af því? Gæti þetta orðið ákveðinn tvíverknaður, að menn vinni eins og lagfæra eigi lögin sem þarna eru og eiga að taka gildi í vor og samhliða komi fram nýtt lagafrumvarp? Ég vil heyra skoðun hv. þingmanns á því.

Vantar eitthvað sem verndar náttúruna í frumvarpinu sem við erum að ræða um að afturkalla? Vantar eitthvað séð frá hagsmunum náttúrunnar en ekki mannsins sem er oft með græðgi sína og yfirgangssemi að leiðarljósi?