143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Réði þá minni hlutinn hérna á síðasta kjörtímabili? Svarið er auðvitað já. Hv. þingmaður segir það sjálfur. Minni hlutinn gekk lengra en ég þekki nokkur dæmi um í þingsögunni a.m.k. rúmlega í 30 ár aftur í tímann í því að taka sér vald sem var út yfir öll eðlileg mörk því að þingræðið er auðvitað ekki fólgið í því að minni hlutinn ráði algerlega. Það sem var eiginlega nýtt fyrir mér, og hef ég nú talsverða reynslu af stjórnarandstöðu, var að minni hlutinn vildi ekki bara ráða því hvaða mál fengjust afgreidd og hver ekki, heldur krafðist hann þess að ráða efnislegri niðurstöðu þeirra mála sem fengjust afgreidd, þ.e. minnihlutasjónarmið áttu að verða niðurstaða þingsins efnislega í þeim málum sem meiri hlutanum yrði náðarsamlegast leyft að fá hér afgreiðslu á.

Það endurtók sig aftur og aftur og er mikið umhugsunarefni fyrir okkur þingræðislega séð. (HBH: Er það sama ekki að gerast í dag?) Það tel ég nú ekki vera og ég verð að segja við hv. þingmann, sem tók sér í munn orðið málþóf í gær eða fyrradag, að í fyrsta lagi er eiginlega ekki hægt að stunda málþóf í 1. umr. Það er nú einfaldlega þannig, hún er lokuð. Það er tiltekinn réttur sem þingmenn hafa, þeir geta fullnýtt hann ef þeir telja ástæðu til og svo er það búið. Það gildir öðru um 2. umr. vegna þess hversu fáránlega vitlaus þingsköpin eru sem menn afgreiddu hér í ágreiningi árið 2007.

Varðandi umsagnir og athugasemdir, nei, ég nálgast það ekki þannig að þær vegi misþungt. Þær eru auðvitað mismunandi að umfangi, lúta að mismunandi þáttum, fyrir sumum er það meira eða þá minna. Ég held að þegar menn leggja það á sig að veita umsögn um þingmál og senda hana inn þá er það alltaf vegna einhvers sem þeir telja sig miklu varða — a.m.k. sig — og þá á að taka það alvarlega og hvort sem það eru heildarsamtök eða fámenn félagasamtök. Ef það er vel rökstutt, ef það er málefnalegt, ef það er eitthvað sem varðar viðkomandi aðila að hans mati þá á að taka tillit til þess, þá á að skoða það.