143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:26]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir meira og minna málefnalega umræðu sem hér hefur staðið yfir í 1. umr. og tel að þau sjónarmið sem hér hafa komið fram muni m.a. nýtast okkur við áframhaldandi vinnu við að setjast niður og að koma fram með ný náttúruverndarlög.

Ég ætla að bregðast við nokkrum þeim atriðum sem þingmenn hafa komið inn á. Ég vil taka undir með þó nokkrum sem hér hafa fjallað um málið að það sé mikilvægt að vanda lagasmíð þannig að líklegt sé að ný lög haldi lengur en eitt kjörtímabil, ég tek undir það, það er mjög mikilvægt.

Það hafa þó nokkrir þingmenn staðið hér í ræðustól og spurt við hverja eigi að ná sátt. Mig langar að varpa annarri spurningu á móti og hreinlega spyrja: Er það einhvers minna virði að ná sátt við hitt stjórnsýslustigið í landinu, sveitarfélögin, við skógræktina, við Samút og fjölmörg önnur frjáls félagasamtök sem stunda ferðamennsku og eru sannarlega náttúruunnendur, nýta landið til ferða og ferðalaga á öllum tímum árs? Er það minna mikilvægt en við einhverja aðra? Ég sendi eiginlega spurninguna út á móti.

Það hefur líka verið spurt: Er hægt að ná samkomulagi við allt og alla? Mín skoðun er sú að það sé mikilvægt að gera að minnsta kosti eins heiðarlega tilraun til þess og hægt er. Ég upplifði það á ágætisumhverfisþingi sem er nýliðið. Yfirskrift þess og innihald var annars vegar nýting náttúrunnar og hins vegar verndun náttúrunnar. Erindin voru mjög ólík og á þetta þing komu aðilar sem sátu í sumum tilvikum í fyrsta skipti í sama sal undir sama þaki og hlustuðu á ólík sjónarmið. Auðvitað gengu ekki allir út eftir eina ráðstefnu sáttir í bragði og voru búnir að finna sína heildarsamstöðulausn. En menn sátu kyrrir og hlustuðu, heyrðu alla vega það sem sagt var og skiptust á skoðunum. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Mitt mat varðandi athugasemdir t.d. á ferðafrelsi.is og hjá Samút og fleiri aðilum er að langsamlega stærsti hluti þeirra og nær allir er ferðast um landið og nýta það sé heiðarlegt og sómasamlegt fólk sem elskar náttúru Íslands. Ég get ekki talað um þennan hóp, löggjöf sem á að skerða réttindi þeirra, í sömu andrá og hegningarlög eins og hér var gert í gær eða fyrradag, ég get það ekki.

Hér hefur líka verið rætt um að það sé svona og svona með þau rök að valdmörk ríkisstofnana eða ríkis og sveitarfélaga séu óljós og það séu heimildir til reglugerðarsmíðar ráðherra til að leysa úr því. Það er kannski besta sönnun þess að lögin séu ekki nægilega skýr ef það þarf reglugerðarheimild við hverja einustu grein til að skýra hverja grein fyrir sig. Ég tel mikilvægt að lög almennt séu ekki uppfull af reglugerðarheimildum ráðherra þó að oft og tíðum sé það nauðsynlegt og ekki hægt að komast hjá því. En mér finnst mikilvægt að sú umræða sem hér hefur átt sér stað sé miklum mun málefnalegri og hófstilltari en umræðan þegar við vorum að afgreiða þetta mál hér á vorþingi. (Gripið fram í.) Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst líklegra en ella eftir þessa umræðu að hægt sé að ná samtali allra flokka á þingi og við ólíka aðila í samfélaginu um ný náttúruverndarlög sem meiri sátt ríki um.

Á einstaka stundum í þessum ræðum var ég þó farinn að velta fyrir mér hvort menn hefðu gleymt því að það séu náttúruverndarlög í gildi og þau munu verða það áfram, til að mynda um akstur utan vega. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa 17. gr. núgildandi laga:

„Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum, svo og á snjó utan vega utan þéttbýlis svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin.

Ráðherra kveður, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, í reglugerð á um aðrar undanþágur frá banni skv. 1. málsl. 1. mgr., m.a. vegna starfa manna við landbúnað, landmælingar, línu- og vegalagnir og rannsóknir.

Ráðherra getur í reglugerð, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar takmarkað eða bannað akstur á jöklum og á snjó þar sem hætta er á náttúruspjöllum eða óþægindum fyrir aðra sem þar eru á ferð.

Ólögmætur akstur utan vega varðar refsingu, sbr. 76. gr.“

Svo ætla ég líka að fá að vitna til 76. gr.:

„Þegar alvarleg spjöll verða á náttúru landsins við akstur eða hann telst sérlega vítaverður að öðru leyti má gera upptækt með dómi vélknúið ökutæki sem notað hefur verið við framningu brots gegn ákvæðum laga þessara, nema ökutækið sé eign manns sem ekkert er við brotið riðinn.“

Ég las 76. gr. a, ég ætla að lesa 76. gr. um refsiábyrgðina:

„Hver sá sem brýtur gegn ákvæðum laga þessara eða reglna settra samkvæmt þeim skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Nú hljótast af broti alvarleg spjöll á náttúru landsins og skal brotamaður þá sæta sektum, að lágmarki 350.000 kr., eða fangelsi allt að fjórum árum. Lágmarksfjárhæð sekta skal taka mánaðarlegum breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs. Sektir renna í ríkissjóð.“

Nú er það ekki svo að það sé engin löggjöf í landinu. Við vitum hins vegar að það er erfitt að framfylgja henni. Kortagrunnurinn sem menn hafa mjög talað um hér og sú viðurkenning að þessi kafli hefði ekki verið nægilega góður og átt að skila af sér aftur inn í þingið á haustdögum eða á árinu 2017 — kortagrunnurinn átti ekki að vera klár fyrr en talsvert seinna en það. Þannig að við erum engan tíma að missa. En það er einnar messu virði að reyna að ná meiri sátt í samfélaginu um lög um náttúruvernd og ég hyggst gera það.

Ég vil ljúka máli mínu hér með því að endurtaka það sem ég flutti í framsögunni að fari svo að Alþingi samþykki þetta frumvarp mun ég strax setjast að vinnu innan ráðuneytisins og skipa vinnuhóp m.a. með fulltrúum ólíkra sjónarmiða og sveitarfélaga til endurskoða lögin. Það breytir því auðvitað ekki að við höfum innan ráðuneytisins verið að skoða þau og sett slíkan undirbúning í gang en ekki er hægt að gera það með formlegum hætti fyrr en þingið hefur lokið sinni umfjöllun.

Þetta verður auðvitað gert til að fá fram fulltrúa ólíkra sjónarmiða og sveitarfélaganna til að endurskoða lögin í samráði við fagstofnanir ráðuneytis á þessu sviði. Ég mun einnig leggja til að þess verði gætt við vinnuna að upplýsa umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis vel um gang mála. Er það von mín að sú vinna gangi vel og um þetta mikilvæga málefni megi skapa betri sátt í þágu íslenskrar náttúru og samfélags.

Nú má vel vera að þingmenn telji að það sé erfitt að ná slíku háleitu og göfugu markmiði, að ná meiri sátt um málaflokk, náttúru Íslands, en hefur náðst. En ég trúi að ef maður reyni þá sé það í það minnsta einnar messu virði að reyna slíkt.