143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:38]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar líklega í gær frekar en fyrradag og verð að segja alveg eins og er að hún var mjög málefnaleg og þar var meiri sáttatónn en í þessu stutta andsvari sem hv. þingmaður kom með. Ég tel, og lýsti því yfir í lokaræðu minni áðan, að sá hljómur sem hefur verið í umræðunni um að menn vilji ná sátt, sem m.a. hv. þm. Össur Skarphéðinsson opnaði á, ef hann hefði verið í þingsölum síðastliðið vor hefðu menn kannski náð niðurstöðu og sátt um mál sem gæti staðið lengur en hugsanlega mun verða.

Ég vil ítreka vegna spurningar hv. þingmanns um hvort stefnan sé að ljúka þessu á yfirstandandi kjörtímabili að það er augljóst markmið mitt. Þegar menn tala um að þessu verði ekki lokið fyrr en 2018 eða síðar vil ég minna á að sá kafli sem allir eru hvað mest sammála um að þurfi að laga og sé sá sem er einna verstur, kaflinn um utanvegaakstur, það átti að taka hann upp og honum átti ekki að ljúka fyrr en 2017. Eins og ég lýsti í lokaræðu minni hafa menn dálítið treyst á og lýst því yfir að nauðsynlegt sé að fá fram ákveðinn kortagrunn en hann átti ekki að koma fyrr en í lok þess tímabils.

Það er því enn nauðsynlegt að setjast yfir það að reyna að finna lausn á þessu. Sá sem hér stendur hyggst gera allt sem hann getur, og er nokkuð bjartsýnn vegna sáttatónsins sem hefur verið í þingsölum í þessari umræðu, til að ljúka málinu miklu fyrr en í lok kjörtímabilsins, helst sem fyrst, og koma með nýtt mál hér inn í þingið.