143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar hæstv. ráðherra hefur sitt friðarferli með því að boða til ófriðar. Ég verð að segja eins og er að ég er ofandottinn yfir því að hæstv. ráðherra skuli í upphafi ferils síns, eftir það róstusama tímabil sem við lifðum á síðasta kjörtímabili, slá á þann möguleika að reyna að ná einhvers konar sátt um þetta.

Ég geri mér alveg grein fyrir að það er auðvitað ýmislegt sem kann að reynast erfitt að ná sátt um. Ég skilgreindi í ræðum mínum í gær að um væri að ræða aðallega tvö atriði. Hæstv. ráðherra nefnir akstur utan vega. Vissulega er það svo að samfella er í þeim lögum sem hæstv. ráðherra vill fella brott, en það er eigi að síður þannig að sá kafli sem að því lýtur er með þeim hætti að jafnvel þó að hann væri ekki gerður að lögum en varúðarreglurnar yrðu hins vegar lögfestar gætu lögin staðið eftir sem áður. Þetta er það eina sem hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) nefnir hér í andsvari.