143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að lokaræða hæstv. umhverfisráðherra olli mér miklum vonbrigðum þó að ég hafi kannski fyrir fram ekki haft miklar væntingar til þess sem embættinu gegnir í ljósi þess að hann hefur farið fram með sögulegu offorsi gagnvart þessum málaflokki. Sá sem embættinu gegnir byrjaði á því að lýsa því yfir að hann teldi að ráðuneytið ætti að leggja niður. Hann hefur ítrekað talað gegn náttúruvernd. Hann hefur ítrekað talað gegn niðurstöðu rammaáætlunar og þegar hann talar um að setjast niður með þeim aðilum sem mestar athugasemdir hafa gert þá er hann að tala um að færa náttúruverndarlöggjöfina fjær hagsmunum náttúrunnar.

Þegar sá tónn hefur verið í þingsal hjá fulltrúum allra þeirra sem skipa flokka stjórnarandstöðunnar, sá tónn að vilja í fullri einlægni setjast yfir álitamálin, kemur ráðherra hingað í lok umræðunnar og gerir lítið úr því. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar hann að brjóta blað í framkomu sinni og sýna á sér þær óvæntu hliðar að ráða yfir höfuð við það að leiða ólík sjónarmið til lykta án þess að beita náttúruvernd og þau sjónarmið sem hún stendur fyrir yfirgangi og ofbeldi eins og hann hefur gert hingað til?