143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:47]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru auðvitað í gildi lög um náttúruvernd, það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir í þeim efnum. Hann tiltekur sérstaklega utanvegaaksturinn. Það eru líka refsiákvæði við utanvegaakstri í nýju lögunum og ég vona að það hljómi ekki of sjálfbirgingslega þegar ég segi að ég skrifaði þau ákvæði sjálfur, en vandamálið er hins vegar kortagrunnsleysið. Það er enginn kortagrunnur. Vandamálið og það sem ég kallaði í fyrradag í ræðu villta vesturs ástand er að einhver ekur einu sinni eða tvisvar og býr til slóða sem verður síðan umdeilanlegt hvort er vegslóði eða ekki. Þess vegna er svo mikilvægt að hraða vinnunni við kortagrunninn.

Ég held að þó ekki væri nema að við næðum samstöðu um það hér á fyrri hluta kjörtímabilsins að láta það standa eða koma vinnu við kortagrunn í gang eins og gert var ráð fyrir í frumvarpinu væri verulegur árangur unninn. Þá væri málinu stefnt til frekari sátta. Ég held að það væri hægt að forða miklum skaða í þeim efnum en auðvitað er búið að setja í lögin ákvæði sem gera ráð fyrir upptöku ökutækja og miklum sektum ef menn valda alvarlegum spjöllum. Við viljum koma í veg fyrir það að fólk geti bara upp á sitt eigið einsdæmi ákveðið hvernig vegakerfið á hálendi Íslands líti út. Þar er stóri munurinn á því að láta þau lög sem hafa verið samþykkt og bíða gildistöku standa og því að fella þau úr gildi.

Mér finnst skorta málefnaleg rök fyrir því að hætta við þessar fyrirætlanir.