143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

164. mál
[19:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að þetta er mikilsvert mál og kannski fyrsta skrefið í því sem við þurfum að færa okkur út í.

Eitt af því sem mætti koma til skoðunar er að endurskoða þann radíus sem við höfum, velta fyrir okkur hvort önnur svæði búi við sambærilegar aðstæður eins og þau svæði sem eru tilgreind í byggðakortinu og hvort þau mundu samrýmast því. Og einnig það atriði sem hv. þingmaður nefndi, stuðning við sjóflutninga. Niðurstaðan varð að það mundi ekki verða gert í þessu frumvarpi. Við höfum velt því upp í öðru samhengi, þ.e. hvort hægt verði með einhverjum hætti að örva skipafélögin til að sigla á ákveðna staði. Það er viðfangsefni sem ég held við ættum að skoða, meðal annars til að styrkja þau svæði á landinu sem búa við erfiðastar samgöngur á landi og verða að treysta á sjóflutninga. En sumir staðir eru kannski heldur ekki með nægilega góða þjónustu eins og til að mynda suðurfirðir Vestfjarða, svo að þeir séu nefndir, þó að það geti auðvitað breyst mjög skyndilega með strandsiglingum eða aukinni starfsemi til dæmis í fiskeldi og öðrum flutningum sem þangað mundu þurfa að leita, þá getur kannski verið að markaðsöflin sjái sig um hönd og fari að sinna því svæði betur en gert er í dag. Það kom ekki til álita við tillögugerðina að þessu frumvarpi að setja sjóflutningana inn í að svo stöddu.