143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

164. mál
[19:06]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil hvetja ráðherra varðandi sjóflutningana að halda tilbúnum útboðsgögnum fyrir strandsiglingar, sem var kannski ástæðan fyrir því að bæði Eimskip og Samskip gáfu út tilkynningu um að þau ætluðu að fara að sigla á ströndina og þar með var ákveðið að bíða með það útboð. Ég held að það skipti máli að halda þeirri ógnun eða hótun yfir þeim.

Það sem mig langar að spyrja betur út í varðar það sem ég spurði út í áðan — flutningsstyrkurinn nýtist fyrst og fremst framleiðslufyrirtækjum sem fá endurgreiðslur vegna flutnings á hráefnum og aðstoð við fyrirtækjarekstur. Hann nýtist því miður ekki varðandi neysluvöru og flutningskostnað á dagvöru sem ég kalla, þ.e. venjulegri matvöru, inn á ákveðin svæði. Ef maður skoðar eitt kíló af sykri eða einhverjar slíkar pakkningar á ákveðnum svæðum eins og Patreksfirði eða á norðausturhorninu, þá er um að ræða verulega háar álögur á þeim vörum vegna flutningskostnaðar. Spurningin er því, af því að við erum með jöfnuð í sambandi við olíugjald og annað, hvort styrkur vegna dagvöru hafi komið til álita. Ég hvet ráðherra til að skoða það áfram þó það komi ekki í þessu frumvarpi, hvort hægt sé að stíga eitt skref í viðbót í þá veru. Það er ekki auðvelt, ég geri mér alveg grein fyrir því, en ég held að það sé þess virði að reyna að jafna þannig stöðu fólks í landinu.