143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

164. mál
[19:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en vil þakka hv. þingmanni fyrir ábendingarnar. Þær verða teknar til skoðunar og við veltum því fyrir okkur hvort við getum gert gott kerfi betra.

Varðandi það að hér séu lög sem voru flutt af fyrri ríkisstjórn og gilda áfram er það sönnun þess, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem hér átti sér stað á undan um náttúruverndarlögin, að þegar við náum sátt um skynsamlega hluti er algjör fjarstæða að fara að breyta þeim bara til þess að breyta þeim þó að það sé komin ný ríkisstjórn. Þetta er kannski gott dæmi um það að þegar góð mál eru á ferðinni og menn eru sammála um þau eru þau einmitt komin til að vera. Þannig þarf stjórnsýslan auðvitað að vera.

Hvað fjárheimildirnar varðar ætti hv. þingmaður sjálfsagt að þekkja það úr tíð sinni í fjármálaráðuneytinu að fjármálaráðuneytið gerði athugasemdir við fyrirkomulag þeirra, að það væri opinn tékki fyrir fram, ekkert ósvipað og með Kvikmyndasjóð. Ég býst við að hv. þingmaður þekki það. En það er alveg tryggt að með þessum lögum og þeirri stefnu sem hér er fylgt, sem allir eru sammála um að eigi að vera með þessum hætti, verði við það staðið að þeir fjármunir sem þurfi til þessarar framkvæmdar fáist á hverju ári. — Ég þakka fyrir umræðuna.