143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

vátryggingastarfsemi og miðlun vátrygginga.

168. mál
[19:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerðina fyrir málinu og fyrir að endurflytja málið. Það kom til okkar í efnahags- og viðskiptanefnd á liðnu kjörtímabili og varðar eins og fram kom ákveðnar athugasemdir ESA. Þær lutu einkum að því að of langt væri gengið í því að tryggja íslenskum aðilum ákveðið athafnarými í vátryggingamiðlun. Ég held að einkanlega þau ákvæði frumvarpsins sem lúta að kröfum til stjórnarmanna og m.a. þess að þeir sitji ekki í stjórnum annarra eftirlitsskyldra aðila geti verið mikilvæg. Við þekkjum þess auðvitað dæmi hér á Íslandi að farið hafi illa þegar fjármálafyrirtæki blönduðust um of í rekstur vátryggingafélaga og önnur og annarleg sjónarmið tóku yfir í ráðstöfun bótasjóðanna. Það er full ástæða til að setja skorður við óheppilegum tengslum þar á milli.

Ég geri ráð fyrir því að málið fái hefðbundið umsagnarferli í efnahags- og viðskiptanefnd og geti vonandi orðið að lögum á þessum vetri. Það er orðið býsna langt síðan tilskipunin frá 2001 var gefin út og nauðsynlegt að fara að bregðast við þeim athugasemdum sem hafa komið frá ESA að þessu leyti.