143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

177. mál
[19:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 129/1997 sem fram komu í efnislega samhljóða frumvarpi sem hlaut að hluta til samþykki þingsins á haustdögum en þau efnisatriði sem teflt er fram í málinu að þessu sinni þótti þurfa að taka til nánari skoðunar á því þingi og varð því ekki úr að nefndin legði til að þessi atriði kæmu til atkvæðagreiðslu í þinginu.

Í fyrsta lagi er um það að ræða að hér er lagt til að lífeyrissjóði verði veitt heimild til þess að skilyrða greiðslu örorkulífeyris við að sjóðfélagi fari í endurhæfingu, enda liggi fyrir álit trúnaðarlæknis sjóðsins. Samsvarandi ákvæði er að finna í lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Lagt er til að öðrum lífeyrissjóðum verði heimilt að byggja á slíkum sjónarmiðum og í því sambandi sérstaklega litið til laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, þar sem meðal annars er mælt fyrir um rétt þeirra sem þiggja örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum til starfsendurhæfingar á vegum starfsendurhæfingarsjóða.

Í öðru lagi eru lagðar til tvær breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða í 2. og 3. gr. frumvarpsins. Annars vegar er lagt til að mælt verði fyrir um að greiði launagreiðandi inn á skuldbindingu sína við lífeyrissjóð sem nýtur bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga með óskráðum skuldabréfum verði sjóðnum heimilt að eiga slík skuldabréf óháð fjárfestingartakmörkunum 36. gr. laganna. Er breytingunni ætlað að greiða fyrir samningum á milli lífeyrissjóða sem njóta bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélags og launagreiðenda sem tryggðu starfsmenn í sjóðnum og ábyrgjast greiðslur til þeirra úr sjóðnum. Ákvæðið sem hér er lagt til hefur ekki áhrif á stöðu bakábyrgðar aðila. Þetta er fyrra atriðið.

Hið síðara er að hér er lagt til að heimild lífeyrissjóða til að eiga allt að 20% hlutafé í samlagshlutafélögum verði framlengd um eitt ár, til 31. desember 2014, til að auðvelda lífeyrissjóðunum að standa að slíkum félögum með allt að 20% eignarhlut. Eins og kunnugt er voru heimildir lífeyrissjóða til að fara með slíkan eignarhlut rýmkaðar allnokkuð eftir fall fjármálakerfisins og með því sköpuð skilyrði til þess að auka hlutdeild lífeyrissjóðanna í félögum af þessari tegund, m.a. vegna hinnar umfangsmiklu endurskipulagningar á fjárhag ýmissa félaga í landinu sem fyrirséð var að mundi taka nokkur ár. Þessu tengdist að sjálfsögðu það að hlutabréf sem skráð voru í Kauphöllina hurfu meira eða minna út sem fjárfestingarkostir fyrir lífeyrissjóðina og þótt sú ánægjulega þróun hafi átt sér stað á undanförnum árum að fleiri félög sæki að nýju inn í Kauphöllina þykja engu að síður enn vera þær aðstæður að ástæða sé til að framlengja þessa heimild um eitt ár.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.