143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

177. mál
[20:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerðina fyrir þessu máli sem sömuleiðis var hjá okkur í efnahags- og viðskiptanefnd á liðnu kjörtímabili og er í rauninni bara endurflutt eins og það kom frá þáverandi ríkisstjórn. Hugmyndin eða umræðan í nefndinni á þeim tíma laut hins vegar að því að á grundvelli þeirra úttekta sem gerðar hafa verið á lífeyrissjóðunum og því sem aflaga fór í rekstri þeirra væri eðlilegt að gera frekari breytingar á fjárfestingarheimildum sjóðanna í heildarendurskoðun á lagaumhverfi sjóðanna.

Þær breytingar sem hér um ræðir og ráðherra nefndi, í 2. gr. og 3. gr., eru þó auðvitað ekki stórvægilegar og út af fyrir sig ekki stórt mál að afgreiða þær. Önnur er tímabundin en til hinnar, um að taka við bréfum með þeim hætti sem ráðherra lýsti, þekki ég nú satt að segja ekki nægilega vel. Það er hins vegar umhugsunarefni hversu langt á að ganga í að framlengja heimildir til að eiga í samlagshlutafélögunum.

Það er ljóst að það hefur auðvitað verið talsvert mikil útgerð á að fá sjóðina til fjárfestinga í ýmiss konar verkefni undir þessum formerkjum sem eru þá frekar litlar upplýsingar til um. Þetta er ekki skráð á markaði, það hefur ekki það aðhald sem kemur af eignarhaldi í kauphöll eða öðru slíku. Þó að það kunni tímabundið að vera rök til að heimila þetta fyrirkomulag er auðvitað hið æskilega að framboð á félögum í Kauphöllinni aukist og að sjóðirnir geti átt í skráðum félögum, þær fjárfestingar séu opnar og öllum aðgengilegar og lúti þeim reglum sem Kauphöllin þrátt fyrir allt lýtur enda sé það almennt séð óheppilegt að lífeyrissjóðirnir séu mikið að vasast með fé í óskráðum félögum.

Ég held að almennt fari best á því að lífeyrissjóðirnir eigi skráða pappíra á markaði og hlutabréf í skráðum félögum á markaði vegna þess að í sjóðunum eru gríðarlega mikil verðmæti sem verið er að sýsla með af tiltölulega fáum einstaklingum og í slíkri starfsemi er það gagnsæi og aðhald sem opinber markaður eins og Kauphöllin veitir mikilvægt. Ég held að engum blöðum sé um það að fletta. Í raun og veru bítur þetta dálítið í skottið á sér í því að eftir því sem við framlengjum heimildir sjóðanna meira og aukum þær meira til að eiga í óskráðum félögum þess minni hvati er fyrir félög til að skrá sig í Kauphöllina, ef lífeyrissjóðirnir mega eiga í þeim óskráðum og utan hennar.

Ef við viljum hvetja til frekari skráningar félaga í Kauphöllinni og að viðskiptin fari þar fram og menn fjárfesti í félögum sem þar eru og lúti þeim reglum þegar þeir fjárfesta með lífeyrissparnað annars fólks er það umhugsunarefni hvort við eigum ekki að hafa alveg í lágmarki heimildir manna til að fara í óskráða pappíra og þannig hvetja félög til þess að fara í Kauphöllina til skráningar og sjóðina til þess að fjárfesta í þeim þar.