143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

177. mál
[20:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ágætisinnlegg í þessa umræðu frá hv. þingmanni. Það er margt sem við getum verið sammála um sem fram kom, sérstaklega mikilvægi þess að skapa sem allra fyrst að nýju undanþágulítið umhverfi fyrir fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna. Í þessu máli er lagt til að heimildin til að fara með 20%, en ekki 15% eins og áður var, af hlutafé samlagshlutafélaga verði framlengt um eitt ár. Eins og hv. þingmaður tók fram er sú heimild kannski ekki stórvægileg en þingmaðurinn kom inn á að ástæða væri til að velta fjárfestingarheimildum lífeyrissjóðanna fyrir sér í víðara samhengi og ég tek undir það.

Það er full ástæða til þess að bregðast við þegar upp koma merki um grundvallarbreytingar, t.d. í þátttöku lífeyrissjóðanna í kaupum á skráðum hlutabréfum eins og við verðum vitni að þessi missirin. Þátttaka lífeyrissjóðanna í kaupum á skráðum hlutabréfum hefur stóraukist. Þeir fara væntanlega með a.m.k. þriðjung allra skráðra hlutabréfa að markaðsvirði og hafa sömuleiðis breytt afstöðu sinni til þátttöku í stjórnum slíkra félaga.

Varðandi óskráðu bréfin þá er dálítið einkennilegt ástand á mörkuðum vegna þess að það virðist vera skortur á fjármagni þegar kemur að fjárfestingu í litlum og jafnvel meðalstórum félögum, félögum sem henta í sumum tilvikum ekki lífeyrissjóðunum vegna þeirrar vinnu sem fylgir því að fara í slíkar fjárfestingar og vegna þess að heildarfjárfestingarþörf þeirra kallar á stærri einingar sem standa þeim til boða. Það er hins vegar afar óheppilegt að um leið og skráðu markaðirnir geta ekki uppfyllt fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna að við séum með skort á fjárfestingu á óskráða markaðnum.

Þetta gefur tilefni til að velta því fyrir sér sem Viðskiptaráð benti til dæmis á núna í vikunni, hvort við gætum ýtt undir frekari skráningu á smærri markaði eins og First North markaðinn í kauphöllinni. Í því samhengi ættum við kannski að velta því fyrir okkur hvort fjárfestingar í skráðum bréfum á þeim markaði ættu að koma inn sem valkostur í fjárfestingarbók lífeyrissjóðanna. Þá mundum við slá tvær flugur í einu höggi eins og þingmaðurinn kom inn á. Það væri hvati fyrir félög að skrá sig þar inn og lífeyrissjóðirnir gætu þá með þeim heimildum mætt skorti á fjárfestingarkostum, sem augljóslega er til staðar í dag.

Þetta er allt hluti af stóra samhengi hlutanna í fjárfestingarkostum innan lands. Það er stutt úr þessari umræðu yfir í umræðu um gjaldeyrishöft og aðra slíka þætti. Þau atriði sem er að finna í þessu frumvarpi, þó að þau geti verið tilefni til að opna þá stóru og nær ótæmandi umræðu, tel ég að séu á þessu stigi málsins sjálfsögð og eðlileg og rökrétt í ljósi þeirra aðstæðna sem enn eru uppi á mörkuðum.