143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[20:12]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 218, frumvarpi til laga um Orkuveitu Reykjavíkur.

Forsaga þessa máls er sú að árið 2001 voru sett lög um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur. Með þeim lögum var veitt heimild til að Orkuveita Reykjavíkur, Akranesveita, Andakílsárvirkjun og Hitaveita Borgarness yrðu sameinaðar og að stofnað yrði sameignarfyrirtæki um reksturinn. Í dag rekur Orkuveita Reykjavíkur sem sérleyfisstarfsemi raforkudreifingu, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu, en sem samkeppnisstarfsemi framleiðslu og sölu raforku. Eigendur Orkuveitunnar eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð.

Um áramót verða grundvallarbreytingar á rekstri Orkuveitu Reykjavíkur. Þá verður rekstri fyrirtækisins skipt upp í aðskilda samkeppnis- og sérleyfisþætti til samræmis við kröfur í raforkulögum, nr. 65/2003. Ljóst hefur verið um nokkurt skeið að sú aðgerð kallar á breytingu á núgildandi lögum um Orkuveitu Reykjavíkur, nr. 139/2001. Að höfðu samráði við Orkuveituna og eigendur hennar þótti heppilegast við þessi tímamót að fella brott núgildandi lög og leggja fram frumvarp til nýrra heildstæðra laga um Orkuveitu Reykjavíkur.

Það frumvarp sem hér er lagt fram gerir því Orkuveitu Reykjavíkur kleift að aðgreina samkeppnis- og sérleyfisþætti í rekstri sínum frá og með áramótum auk þess sem nokkrar breytingar eru lagðar til á lögunum frá 2001 til einföldunar.

Um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja er fjallað í 1. mgr. 14. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Það ákvæði kom inn í lögin með breytingalögum árið 2008, en gildistöku þess hefur í fjórgang verið frestað með vísan til aðstæðna á fjármálamörkuðum. Ákvæðið kemur hins vegar til framkvæmda 1. janúar næstkomandi þar sem ekki þykir ástæða til að fresta því í fimmta sinn. Fyrir þann tíma þurfa fyrirtæki á þessum markaði, þar með talin Orkuveita Reykjavíkur, að vera búin að aðgreina samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi sína í aðskilin fyrirtæki.

Að undanskilinni Orkuveitu Reykjavíkur hafa frá 2008 orkufyrirtæki á Íslandi sem sinna bæði vinnslu og dreifingu raforku þegar framkvæmt aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í sínum rekstri. Þannig eru HS Orka og HS Veitur aðskilin fyrirtæki í rekstri og sama á við um Rarik og Orkusöluna annars vegar, Norðurorku og Fallorku hins vegar.

Sem áður segir þykir ekki ástæða til að fresta gildistöku 1. mgr. 14. gr. raforkulaga í fimmta sinn og hefur Orkuveita Reykjavíkur því unnið að undirbúningi uppskiptingar fyrirtækisins um nokkurt skeið og miðað sinn undirbúning við að uppskiptingin taki gildi um áramót samhliða gildistöku umrædds ákvæðis raforkulaga.

Eins og áður greinir var talið rétt við þau tímamót sem verða um áramót að fella brott gildandi lög frá 2001 og setja ný heildarlög um Orkuveitu Reykjavíkur. Það frumvarp sem hér er lagt fram kemur því í stað núgildandi laga nr. 139/2001, um stofnun Orkuveitu Reykjavíkur. Í grunninn byggir frumvarpið á texta laga nr. 139/2001.

Helsta nýmæli frumvarpsins er að skýrt er tekið fram að Orkuveitu Reykjavíkur sé heimilt að eiga dótturfélög og framselja til þeirra tilgreind sérleyfi eða einkaleyfi, enda er fyrirtækinu það nauðsynlegt til að uppfylla skilyrði raforkulaga um aðskilnað sérleyfis- og samkeppnisstarfsemi. Skýrt er tekið fram í frumvarpinu að aðgreining í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur skuli vera í samræmi við ákvæði laga hverju sinni og að þess skuli gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af sérleyfisstarfsemi. Allt er það í samræmi við kröfur áðurnefndrar 14. gr. raforkulaga.

Í 2. gr. frumvarpsins er fjallað um þá starfsemi sem Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að stunda. Vert er að geta þess að með frumvarpinu er heimildin þrengd frá gildandi lögum, en í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að hluti verkefna fyrirtækisins geti verið viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Lagt er til að sú heimild verði felld út. Þannig er með frumvarpinu kveðið á um að Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög skuli stunda vinnslu, framleiðslu og sölu raforku og heits vatns og gufu og rekstur grunnkerfa, svo sem dreifiveitu rafmagns, hitaveitu, vatnsveitu, fráveitu og gagnaveitu. Einnig gerir frumvarpið ráð fyrir eins og er í núgildandi lögum að undir Orkuveituna geti fallið starfsemi sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað Orkuveitunnar sem og iðnþróun og nýsköpun.

Í frumvarpinu er að öðru leyti með sambærilegum hætti og í gildandi lögum nr. 139/2001 kveðið á um eigendur Orkuveitu Reykjavíkur, rekstrarform, tilgang og markmið fyrirtækisins, ábyrgðir og skuldbindingu fyrirtækisins, heimildir til gjaldtöku og skipan í stjórn. Ákvæði um stjórn fyrirtækisins, aðalfund, ráðningu og hlutverk forstjóra og fleira er snýr að daglegum rekstri fyrirtækisins er einfaldað nokkuð frá gildandi lögum og í frumvarpinu vísað til þess að um þau atriði skuli kveðið á í sameignarsamningi eigenda eða samþykktum viðkomandi fyrirtækja.

Í frumvarpinu eru ákvæði til bráðabirgða sem ætlað er að tryggja að uppskipting Orkuveitu Reykjavíkur muni ein og sér ekki hafa í för með sér skattalegar skuldbindingar sem ella hefðu ekki fallið til. Í bráðabirgðaákvæðunum felast ekki neinar skattalegar ívilnanir fyrir Orkuveitu Reykjavíkur eða fyrirhuguð dótturfélög, heldur er þeim ætlað að koma í veg fyrir fjárhagslegt óhagræði eða tjón af uppskiptingunni.

Sú framkvæmd sem lögð er til í bráðabirgðaákvæðum er í samræmi við þann hátt sem hafður var á við uppskiptingu annarra orkufyrirtækja hérlendis og er ekki til þess fallin að gera stöðu fyrirtækjanna sem verða til við skiptinguna sterkari en hún hefði ella verið.

Það frumvarp sem hér er lagt fram byggir því sem áður segir í grunninn á núgildandi lögum frá árinu 2001, en felur í sér nýmæli sem gerir Orkuveitu Reykjavíkur kleift að aðgreina samkeppnis- og sérleyfisþætti í rekstri sínum frá og með áramótum með því að stofna dótturfélög og kveður á um að aðgreining í starfsemi fyrirtækisins skuli vera í samræmi við ákvæði laga hverju sinni.

Við gerð frumvarpsins var haft náið samráð við Orkuveitu Reykjavíkur og eigendur fyrirtækisins. Jafnframt var haft samráð við Orkustofnun sem og fjármála- og efnahagsráðuneytið vegna skattalegra atriða í tengslum við uppskiptinguna. Í kostnaðarumsögn með frumvarpinu kemur fram að ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi fjárhagsleg áhrif í för með sér fyrir ríkissjóð.

Ég lít svo á að með þessu frumvarpi sé verið að horfa til framtíðar og treysta undirstöður Orkuveitu Reykjavíkur á gegnsæjan hátt og jafnframt tryggja að öll orkufyrirtæki á Íslandi starfi á sama grundvelli í samræmi við þær kröfur sem okkar raforkulög gera til fyrirtækja á þessum markaði. Við skulum hafa í huga að eitt af markmiðum raforkulaga á sínum tíma var að efla samkeppni í raforkuframleiðslu neytendum til hagsbóta og er hér um mikilvægt skref að ræða í þá átt meðal annars í þá veru að tryggt er að sérleyfisstarfsemi sé ekki að niðurgreiða samkeppnisstarfsemi. Ég tel því að hér sé um afar brýnt og jákvætt mál að ræða sem undirbúið hefur verið í góðri sátt við fyrirtækið og fellur vel að framtíðarsýn þess.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.