143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[20:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir þessa yfirferð. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um ákvæði til bráðabirgða nr. V þar sem getið er um að þinglýsing eignarheimilda þeirra fasteigna sem færast yfir til hinna nýju rekstrarfélaga skuli ekki vera stimpilskyld á grundvelli laga nr. 36/1978, um stimpilgjald. Um bráðabirgðaákvæðið segir í greinargerð að það sé enda talið að slíkur lögþvingaður aðskilnaður eigi ekki að leiða til meiri fjárútláta en nauðsyn krefji.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hægt sé að tala í raun um lögþvingaðan aðskilnað þegar í fimmta sinn er fallið frá að veita Orkuveitunni frest til að aðskilja samkeppnis- og sérleyfisþætti.

Mig langar að spyrja líka hæstv. ráðherra hvort staðið hafi verið að stimpilgjöldum með sama hætti þegar öðrum fyrirtækjum var skipt upp hvað þetta varðar.