143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[20:28]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Þetta hefði orðið efni í ansi langt andsvar þannig að ég ákvað að nota síðari ræðu mína til að fara yfir að minnsta kosti einhverjar af þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín og þakka henni fyrir innlegg hennar í þessa umræðu.

Í fyrsta lagi biður þingmaðurinn mig um að reifa forsendurnar fyrir því að sett séu grundvallarheildarlög en ekki gerð breyting á lögunum. Eins og ég fór yfir í ræðu minni er um ákveðin tímamót að ræða. Upprunalegu lögin um Orkuveitu Reykjavíkur voru sett árið 2001 við stofnun sameignarfyrirtækisins og nú eru ákveðin tímamót í starfsemi fyrirtækisins. Það þótti hreinlega heppilegast í þessari frumvarpssmíð og varð að niðurstöðu á milli ráðuneytisins og starfsmanna og stjórnenda Orkuveitunnar, sem þetta frumvarp er unnið í nánu samráði við, að fara þessa leið, það þótti hreinlegra að það kæmi ný löggjöf sem lyti að uppskiptingunni. Það er verið að þrengja heimildir, ekki vegna fjármögnunar heldur til að hnykkja á þeirri grunnstarfsemi sem Orkuveitunni er ætlað að sinna í veitustarfsemi og raforkuframleiðslu. Í ljósi reynslunnar af Orkuveitu Reykjavíkur var talin ástæða til að takmarka þær heimildir.

Þingmaðurinn spurði um það hvort verið væri að breyta skyldum og inntaki sameignarfélagsins. Það er ekki. Það er óbreytt.

Spurt var um samráð við eigendur og stjórnendur fyrirtækisins. Frumvarpið hefur verið eins og ég sagði áðan unnið í nánu samráði og samstarfi milli ráðuneytisins og fyrirtækisins.

Í aðdraganda lagasetningar eins og ég rifjaði upp áður hefur gildistöku þessa ákvæðis verið frestað fjórum sinnum. Síðast þegar eigendur Orkuveitunnar komu að máli varð úr að forveri minn í starfi, þáverandi iðnaðarráðherra, lagði fram frumvarp til frestunar á gildistöku í fjórða sinn. Því var tekið þannig á hinu háa Alþingi að hv. atvinnuveganefnd sagði: Nei, þið fáið ekki frestun um eitt ár á þessu ákvæði, þið fáið frest í tvö ár. Svo voru skilaboðin eiginlega: Þá viljum við heldur ekki sjá ykkur aftur.

Það hefur legið fyrir í langan tíma að þessi uppskipting stæði til. Önnur orkufyrirtæki eins og ég fór yfir hafa lokið henni. Ef sú tilskipun sem raforkulögin byggðu á átti við um eitthvert fyrirtæki var það um Orkuveitu Reykjavíkur. Þannig að þegar þessu hefur verið frestað áður hefur það verið ekki síst vegna aðstæðna á fjármálamarkaði. Eins og hv. þingmaður benti á hefur tekist ágætisárangur í rekstri Orkuveitunnar á liðnum árum og hefur orðið viðsnúningur þar þannig að þær aðstæður sem áður þóttu réttlæta frestun eru ekki lengur til staðar. Og í samtölum mínum og ráðuneytisins í sumar við starfsmenn og stjórnendur fyrirtækisins voru þau skilaboð gefin að að uppskiptingu fyrirtækisins væri unnið og engar ástæður væru til að breyta út af því. Menn gerðu ráð fyrir því að uppskiptingin yrði núna um áramót.

Ég get greint frá því að eigendanefnd Orkuveitunnar kom á minn fund í byrjun október og lét í ljós þeirra sjónarmið og óskaði eftir því að þessu yrðu frestað eina ferðina enn. Beiðnin var skoðuð í ljósi þess hver skilaboð Alþingis voru síðast þegar slík beiðni kom fram og ýmissa upplýsinga, til að mynda frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Að beiðni eigendanefndarinnar árið 2011 fékk iðnaðarráðuneytið Hagfræðistofnun til að gera úttekt á því hvort sá fyrirtækjaaðskilnaður sem mælt er fyrir í raforkulögum eigi að öllu leyti við um markaðsaðstæður á Íslandi og hvort hann sé til þess fallinn að skapa samkeppnisumhverfi sem sé neytendum raforkuþjónustu til hagsbóta.

Til að gera langa sögu stutta er niðurstaða skýrslunnar sú að samkeppni hefur myndast á raforkumarkaði og að rekstrarkostnaður raforkufyrirtækjanna virðist ekki hafa aukist meira en verðlagsbreytingar. Það bendir til þess að ávinningur hafi orðið af því að búa til samkeppnisvænni umgjörð raforkumála með þessum aðskilnaði.

Þannig að þegar allt var tekið til var niðurstaða mín að hafna beiðni eigendanefndar Orkuveitunnar, enda fannst mér hún mjög seint fram komin. Það var í byrjun október sem beiðnin kom fram. Þing hafði þegar komið saman. Það hafði legið fyrir í tvö ár að þetta yrði lagt fram. Mér þótti ekki ástæða, að öllum gögnum skoðuðum og eins og ég ítreka eftir samtöl við stjórnendur fyrirtækisins sem höfðu unnið að þessu um langa hríð, til að breyta þeim áformum. Því er þetta frumvarp fram komið.

Viðkvæm staða, segir hv. þingmaður. Ég er ekki sammála því. Ég held að staðan sé ekkert viðkvæmari nú en áður. Þetta eru lög sem önnur orkufyrirtæki hafa þurft að sæta og hlíta á undanförnum árum. Hvað sem mönnum finnst um þau lög eru þau lög. Ég tel ekki líklegt og það er mat ráðuneytisins að ekki yrði auðsótt að fá breytingar á þeirri tilskipun eða undanþágu á þessu stigi máls, við erum komin fram yfir þann punkt. Þannig að tímasetningin er að mínu mati ágæt.

Það var spurt um starfsfólkið, hvort það væri upplýst — það er vel upplýst um þetta. Og ég ítreka gott samstarf og samvinnu við starfsfólk Orkuveitu Reykjavíkur við samningu þessa frumvarps og ég fullvissa hv. þingmann að þetta er gert í góðu samráði og samstarfi við það.