143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[20:36]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessa yfirferð.

Nokkrar spurningar koma upp í hugann. Í fyrsta lagi: Telur ráðherra möguleika á því að búa þannig um löggjöfina að unnt sé að hverfa frá aðskilnaði varanlega eða að án uppskiptingar varanlega, að það gæti haldið gagnvart tilskipuninni? Telur ráðherra það vera fullrýnt að fara slíka leið?

Í öðru lagi kom fram að ráðherrann hefði ekki áhyggjur af tímasetningunni. Ég saknaði þess að fá skýrar fram í máli hennar hvernig hún rökstyður að hafna beiðni eigendanefndar og tala í sömu andrá um gott samstarf við eigendur. Má ég skilja það svo að eigendur komi til með að senda inn neikvæða umsögn gagnvart frumvarpinu í meðförum nefndarinnar og beita sér gegn þessari lagasmíð?

Í þriðja lagi langar mig að heyra hvort ráðherrann hefur einhverjar upplýsingar um það á hvaða stað eigendur eru eftir samþykkt þessara laga, þ.e. hvaða breytingar á samþykktum þarf að gera varðandi samþykktir Orkuveitunnar, og þá er ég að tala bæði um stjórn Orkuveitunnar, borgarráð og bæjarráð, eigendur og eigendanefndina. Hvaða verkefni er fram undan og hvaða efnislegu atriði koma til álita við slíka endurskoðun?