143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[20:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör.

Það sem stendur kannski svolítið út af í þessum efnum er sú staðreynd að eigendanefndin leitar ásjár ráðherra í upphafi hausts, í október, með rökstuddri beiðni um að fyrirtækið yrði ekki látið fara í þetta uppskiptingarferli og að frumvarpið yrði ekki lagt fram eins og hér var gert. Eigendanefndin leitar ásjár ráðherra og fékk synjun þrátt fyrir ítarleg efnisleg rök sem ég geri ráð fyrir að eigendanefndin hafi fært fyrir beiðni sinni. Ráðherrann komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að verða við henni með þeim rökum sem ráðherrann hefur rakið hér og meðal annars með tilvísun til fyrri afgreiðslu þingnefndarinnar og þingsins.

Virðulegur forseti. Ég held að ekki verði hjá því komist að staldra við að það getur ekki talist farsælt upphaf samstarfs við eigendur fyrirtækisins ef þeir byrja á því að leita ásjár ráðherra og biðjast undan frumvarpi sem ráðherrann síðan setur fram óháð þeirri ósk. Væntanlega þarf þingnefndin svo að leita eftir sömu sjónarmiðum sem leiddu eigendur á fund ráðherra á sínum tíma og væntanlega þarf þingnefndin að taka afstöðu til þess hvort rök ráðherrans fyrir því að fara fram eigi að síður haldi eða hversu sterk þau séu.

Ég vonast auðvitað til að hv. þingnefnd leggi við hlustir og vinni málið vel og skynsamlega og að það (Forseti hringir.) fái farsælar lyktir.