143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[20:43]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Ég vona svo sannarlega að málið fái farsæla lúkningu hér og að það verði fyrirtækinu til góðs, þetta snýst allt saman um það, og að íslenskur raforkumarkaður uppfylli þær skyldur sem á hann eru lagðar.

Ég vil benda á að þegar öðrum fyrirtækjum var gert að uppfylla þessi lagaákvæði voru þau ekki endilega sátt fyrir fram og komu væntanlega hingað til þingsins með sín sjónarmið. Á þau var ekki fallist, en ég get fullvissað hv. þingmann um að ekki hefur borið á kvörtunum þeirra fyrirtækja til mín eftir að ég tók við embætti mínu og þau fyrirtæki eru öll í góðum rekstri í dag.

Það er rétt að eigendanefndin leitaði ásjár, eins og hv. þingmaður orðaði það, en eftir að hafa vitað að þetta stæði til í tvö ár þótti mér sú bón afar seint fram komin, einungis þremur mánuðum áður en þetta á að taka gildi því að hafði verið öllum ljóst og því hafði þegar verið frestað fjórum sinnum. Þrátt fyrir ítarleg gögn segir hv. þingmaður — nei, þetta voru sömu gögn og höfðu verið lögð til grundvallar áður, þar á meðal að óvissa ríkti gagnvart lánardrottnum en lánardrottnarnir hafa vitað þetta allan tímann. Ég, eftir samtöl við stjórnendur fyrirtækisins, var algjörlega fullvissuð um að þetta hafði verið í undirbúningi og fyrirtækið hafði ekki gert ráð fyrir neinu öðru en að uppfylla þessar lagaskyldur, enda skyldur. Þegar það var skoðað eftir þau samtöl þótti mér þessi bón of seint fram komin og ekki studd nægjanlega sterkum rökum til þess að á hana yrði fallist.

Nú fer málið til meðferðar í þingnefndinni. Ég hvet hv. nefnd til þess að fara rækilega yfir gögnin. Nefndin þekkir málið vel hafandi haft það til (Forseti hringir.) afgreiðslu nokkrum sinnum. Ég treysti því og trúi að málið verði unnið vel (Forseti hringir.) en vonandi líka nokkuð hratt vegna þess að lögin þurfa að taka gildi 1. janúar.