143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

málefni aldraðra.

185. mál
[20:46]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Tilefni frumvarpsins er að með forsetaúrskurði frá 24. maí 2013, við skiptingu starfa ráðherra, voru verkefni velferðarráðuneytisins falin tveimur ráðherrum, félags- og húsnæðismálaráðherra og heilbrigðisráðherra. Samkvæmt úrskurðinum fer félags- og húsnæðismálaráðherra með málefni aldraðra en heilbrigðisráðherra fer þó með mál sem varða hjúkrunarheimili, dvalarheimili, dagdvöl aldraðra og Framkvæmdasjóð aldraðra.

Samkvæmt lögum um málefni aldraðra skipar ráðherra fimm manna samstarfsnefnd um þau málefni sem skal vera ráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um málefni aldraðra, vera tengiliður milli ráðuneyta, stofnana og samtaka sem starfa að málefnum aldraðra og stjórna Framkvæmdasjóði aldraðra. Þegar samstarfsnefndin fjallar um málefni Framkvæmdasjóðs aldraðra tekur fulltrúi tilnefndur af fjárlaganefnd Alþingis sæti í henni.

Eins og nú háttar til fer samstarfsnefnd um málefni aldraðra með málefni sem heyra undir báða ráðherrana. Því er talið nauðsynlegt að taka málefni Framkvæmdasjóðs aldraðra undan samstarfsnefnd um málefni aldraðra og fela þeim ráðherra sem fer með málefni framkvæmdasjóðsins, þ.e. heilbrigðisráðherra, að skipa sérstaka stjórn sjóðsins sem hafi það hlutverk að stjórna sjóðnum og gera tillögur til ráðherra um úthlutun úr honum.

Lagt er til að heilbrigðisráðherra eða sá ráðherra sem fer með Framkvæmdasjóð aldraðra skipi fjóra fulltrúa í stjórn sjóðsins, formaður verði skipaður án tilnefningar en þrír fulltrúar verði skipaðir samkvæmt tilnefningu Landssambands eldri borgara, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjárlaganefndar Alþingis.

Skipan samstarfsnefndar um málefni aldraðra verður hins vegar óbreytt, hún verður skipuð af félags- og húsnæðismálaráðherra eða þeim ráðherra sem fer með málefni aldraðra. Verkefni hennar verða að vera ráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um málefni sem varðar aldraða og vera tengiliður milli ráðuneyta, stofnana og samtaka líkt og hér var áður talað um.

Eina breytingin sem gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu er að það verkefni samstarfsnefndar um málefni aldraðra, þ.e. að annast stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra, verði falið sérstakri stjórn sjóðsins sem skipuð verði af þeim ráðherra sem fer með málefni sjóðsins.

Í kostnaðarumsögn um frumvarpið er bent á að kostnaður við samstarfsnefndina í heild sinni hafi verið óverulegur eða 700–800 þúsund kr. á ári. Ekki er gert ráð fyrir aukakostnaði við þessar breytingar, þ.e. að þær leiði ekki til aukinna útgjalda ríkissjóðs umfram núverandi fjárveitingar til Framkvæmdasjóðs aldraðra. Það felst í þessu frumvarpi og er því ekki um að ræða miklar breytingar á lögunum.

Mikilvægt er að frumvarpið verði afgreitt núna á haustþingi svo að hægt verði að auglýsa eftir umsóknum um framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra í byrjun árs eins og tíðkast hefur og stjórnin geti í framhaldinu hafið undirbúning tillagna til ráðherra um úthlutun úr sjóðnum.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar.