143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

176. mál
[21:01]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Þessu frumvarpi er meðal annars ætlað að koma til móts við athugasemdir ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, þess efnis að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá árinu 2006, um framkvæmd hinnar svokölluðu meginreglu um jöfn tækifæri og jafna meðferð karla og kvenna að því er varðar atvinnu og störf, hafi ekki verið að fullu innleidd með lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hér á landi. Í athugasemdum stofnunarinnar kemur meðal annars fram að ákvæði fyrrnefndra laga endurspegli ekki nægilega vel orðalag tilskipunarinnar varðandi hugtökin bein og óbein mismunun, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni. Einnig gerir Eftirlitsstofnunin athugasemdir við að í lögunum er ekki kveðið á um að kynbundin og kynferðisleg áreitni teljist mismunun og þar með óheimil hegðun sem og að í lögunum sé ekki kveðið á um að fyrirmæli um mismunun á grundvelli kyns teljist einnig til mismununar og þar með óheimil. Þá hefur stofnunin gert athugasemdir við að í lögunum er ekki kveðið á um að hvers konar óhagstæð meðferð einstaklings í kjölfar þess að hann hafi vísað á bug kynbundinni eða kynferðislegri áreitni eða hafi sætt sig við slíka hegðun teljist til mismununar og þar með óheimil. ESA telur að misræmi á milli íslenskra laga og fyrrnefndrar tilskipunar kunni að leiða til þess að einstaklingar geti í vissum kringumstæðum farið á mis við þá réttarvernd sem tilskipunin leggur grunn að.

Hér er líka verið að innleiða að fullu tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá árinu 2010, um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð karla og kvenna sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur, en sams konar ákvæði er þar að finna.

Megintilgangur þessa frumvarps er því að gera nauðsynlegar breytingar á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í því skyni að innleiða með fullnægjandi hætti framangreindar tilskipanir og tryggja þar með réttarvernd beggja kynja hvað þetta varðar.

Einnig er í frumvarpinu lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við ákvæði laga um launajafnrétti sem heimilar ráðherra að setja reglugerð við nánari framkvæmd þess ákvæðis, þar á meðal um framkvæmd staðals um launajafnrétti, svo sem hæfniskröfur til vottunarstofa og framkvæmd jafnlaunavottunar. Þetta er gert til að tryggja sem vönduðust vinnubrögð í þessu sambandi. Mjög mikið samstarf hefur verið á milli velferðarráðuneytis, aðila vinnumarkaðarins og Staðlaráðs Íslands varðandi innleiðingu á þessum staðli hvað varðar jafnlaunavottunina.

Í þessu frumvarpi er líka lagt til að innleidd verði tilskipun ráðsins frá árinu 2014, um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð karla og kvenna að því er varðar aðgang að og afhendingu á vöru og þjónustu. Þetta er í samræmi við þingsályktun sem Alþingi samþykkti í maí 2012.

Í frumvarpinu er því að finna reglur sem eiga að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns í tengslum við vörukaup og þjónustu þannig að aðgangur eða afhending vöru annars vegar og aðgangur eða veiting þjónustu hins vegar sé ekki hagstæðari fyrir annað kynið. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því að þetta ákvæði útiloki mismunandi meðferð kynjanna ef lögmæt markmið réttlæta að aðgangur að eða afhending á vöru annars vegar og aðgangur að eða veiting þjónustu hins vegar bjóðist eingöngu einstaklingum af öðru kyni ef aðferðirnar til að ná fyrrnefndu markmiði eru viðeigandi og nauðsynlegar. Það getur verið að ýmsar aðstæður sem lúta að einkalífi og velsæmi réttlæti þannig mismunandi meðferð, t.d. hvað varðar gistingu hjá einstaklingi og annað. Þá getur réttlætt mismunandi meðferð þegar verið er að stuðla að kynjajafnrétti eða bættum hagsmunum annars kynsins, t.d. sjálfboðaliðasamtök fyrir annað kynið eða aðild að einkafélögum fyrir annað kynið.

Lögð er mikil áhersla á að allar takmarkanir skuli vera viðeigandi og nauðsynlegar en þar með er þess ekki krafist að körlum og konum, eins og einhver gæti hugsað sér, sé alltaf veitt sameiginleg aðstaða heldur að tilskylda að sú aðstaða sé ekki hagstæðari fyrir annað kynið á grundvelli kyns.

Alltaf skal huga að því að samningsfrelsi í viðskiptum sé til grundvallar og má alls ekki brjóta í bága við frelsi aðila til að velja sér samningsaðila. Til að taka það fram þá á þetta á ekki við um viðskipti á öðrum sviðum, svo sem hvað varðar fjölskyldu og/eða einkalíf. Þetta á hins vegar við þá sem veita vörur eða þjónustu sem býðst almenningi á almennum markaði og á opinberum markaði. Þetta á ekki við málefni sem varða vinnumarkaðinn og mundi því ekki gilda t.d. um tryggingar sem tengjast vinnumarkaðnum. Sem dæmi um slíkar tryggingar má nefna launþegatryggingar og starfsábyrgðartryggingar tiltekinna starfsstétta, svo sem lækna og lögmanna.

Það sem verið er að leggja hér til snertir sérstaklega tryggingafélög. Ég tel að nefndin þurfi að fara mjög vel yfir það þegar málið kemur þangað til meðferðar. Við í velferðarráðuneytinu höfum einmitt lagt mikla áherslu á að leita eftir upplýsingum hvað þetta varðar. Ég hvet þess vegna nefndina til þess að skoða það líka sérstaklega. Lagt er til að bannað verði að nota kyn viðskiptavinar sem stuðul við útreikninga í tengslum við ákvörðun um iðgjald og við ákvörðun um bótafjárhæð vegna vátryggingarsamninga eða samkvæmt annarri skyldri fjármálaþjónustu sem leiðir til mismunandi iðgjalda eða bótafjárhæðar fyrir einstaklinga á grundvelli kyns. Ekki er gert ráð fyrir því að frumvarpið komi alfarið í veg fyrir að notaðar verði kynjabreytur í tryggingastærðfræðilegum útreikningi heldur verði slíkt áfram heimilt við útreikninga á iðgjöldum og bótafjárhæðum svo framarlega sem það komi ekki fram í mismunandi iðgjöldum eða bótafjárhæðum fyrir einstaklinginn sjálfan. Þegar tryggingafélagið þarf að tryggja sig getur það haft kyn sem breytu þar undir, en það er ekki hægt að mismuna fólki á grundvelli kyns hvað varðar iðgjöldin.

Á grundvelli tilskipunarinnar er líka verið að innleiða í lög að lakari meðferð á konum vegna meðgöngu og fæðingar teljist bein mismunun og slíkt eigi að vera bannað í vátryggingastarfsemi eða annarri skyldri fjármálaþjónustu svo að kostnaður vegna hættu á meðgöngu og við fæðingu geti ekki eingöngu verið eignaður öðru kyninu.

Töluvert hefur verið unnið að innleiðingu þessarar tilskipunar, eins og ég kom inn á áðan, í samráði við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, sem áður var efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Samtök fjármálafyrirtækja og Fjármálaeftirlitið. Hugsunin á bak við það er sú að ef frumvarpið verður að lögum muni það leiða til jafnari stöðu kynjanna á tilteknum sviðum og auka réttarvernd beggja kynja á grundvelli laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Það er rétt að fram komi líka hér að við vinnslu málsins kynntum við okkur sérstaklega hvernig hefði verið staðið að innleiðingu þessa í öðrum löndum og miðað við þær upplýsingar sem við fengum er búið að innleiða þessar tilskipanir innan Evrópusambandsins. Núna fer fram könnun á því hvernig hefði verið staðið að innleiðingunni auk þess sem fyrir liggja líka dómar hvað varðar tryggingafélögin og iðgjöldin fyrir Evrópudómstólnum. Þegar kemur síðan að EES-löndunum er búið að innleiða þetta að hluta til í Noregi en hvað snýr hins vegar að því sem varðar tryggingafélögin er það í undirbúningi og gert ráð fyrir að það komi fram á þessu þingi þar.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og til 2. umr.

Í umsögn skrifstofu opinberra fjármála varðandi fjárhag ríkisins er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Þegar við óskuðum eftir gögnum frá tryggingafélögum, um hvaða áhrif þetta gæti haft á þau, gekk hálferfiðlega að fá nákvæmar upplýsingar um það frá þeim. Hér er hugað að því að þau séu í sambærilegri stöðu og önnur tryggingafélög á EES-svæðinu.