143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

176. mál
[21:14]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og tek undir með henni hvað það varðar að það ætti auðvitað að vera markmið hvers fyrirtækis og stofnunar að hafa þessa hluti í lagi og það er ánægjulegt að heyra að ráðuneytið ætli að byrja á því. Það er nokkuð sem við getum hugsað um; er það ekki bara ágætismarkmið í það minnsta á kjörtímabilinu að ráðuneytin verði öll búin að innleiða þetta innan ráðuneytanna og hugsanlega líka í einhverjum tilteknum stofnunum?

Það kemur fram í lokin að ráðherra geti sett reglugerð um innleiðinguna hvað varðar hæfniskröfu og vottunarstofu og svo framkvæmdina. Það er spurning hvort hægt sé að setja þar inn einhvern hvata eða annað sem skipt gæti máli í þessu og gerði það fýsilegra fyrir fyrirtæki og stofnanir að innleiða þetta ferli. En auðvitað er rétt að ganga á undan með góðu fordæmi, það er auðvitað það sem stjórnvöld ættu að gera og ekki bara velferðarráðuneytið heldur líka öll hin.