143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

176. mál
[21:16]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggja fyrir drög að reglugerðinni þannig að ég geri ráð fyrir að þau drög verði kynnt fyrir allsherjar- og menntamálanefnd þar sem málið fer inn í jafnréttismál. Þá getur nefndin náttúrlega komið athugasemdum á framfæri við gerð reglugerðarinnar. Ég verð hins vegar að segja að ég tel rétt að við innleiðum þetta þannig að það sé valfrjálst að fá vottun og við reynum frekar að vera til fyrirmyndar hvað þetta varðar.

Það var mjög áhugavert að lesa frétt á mbl.is núna áðan þar sem verið var að fjalla um Festu sem er félagsskapur sem hvetur til samfélagslegrar ábyrgðar. Festa var með aðalfund þar sem félagar þar veltu fyrir sér hugtakinu „samfélagsleg ábyrgð“ og þá hvernig t.d. ríkið gæti sýnt samfélagslega ábyrgð. Ég held að það geti m.a. falist í því að vera ákveðin fyrirmynd fyrir einkageirann hvað þetta varðar þannig að fleiri ráðuneyti vilji feta í fótspor okkar. Það snýr sömuleiðis að stofnunum á vegum ráðuneytisins og stofnunum á vegum annarra ráðuneyta. Það er því verið að huga að því að hafa sem fjölbreyttasta flóru þegar ferlið hefst.

Í mínum huga er samfélagsleg ábyrgð mjög víðtækt hugtak og snýr að mjög mörgum þáttum. Þetta getur svo sannarlega verið einn af þeim.