143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

málefni RÚV.

[15:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Svör hæstv. fjármálaráðherra valda sannarlega vonbrigðum. Ég hafði vonað að ráðherrann mundi boða að hann hefði áhyggjur af stöðunni; að hann vildi setjast yfir 500 millj. kr. fjárvöntun, sem verður ekki mætt öðruvísi en með fjöldauppsögnum af þessu tagi; að hann teldi mikilvægt að Ríkisútvarpið hafði sjálfstæðan fjárhag eins og menn sameinuðust um í lagasetningunni í vor; að hann væri tilbúinn til að gera breytingar við 2. umr. Og sérstaklega vonaði ég þetta í ljósi þess, eins og ég gat um hér í upphafi, að formaður fjárlaganefndar hefur haft í hótunum við Ríkisútvarpið, á þá leið að ef það gerði ekki þetta eða hitt þá fengi það að sjá það í fjárlögunum. Ég batt satt að segja vonir við að Sjálfstæðisflokkurinn hefði aðrar hugmyndir um sjálfstæði fjölmiðla og samskipti við Ríkisútvarpið í þessum efnum og harma það að hæstv. fjármálaráðherra sé þarna genginn í björg.