143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart RÚV.

[15:12]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Þetta er dramatískur dagur fyrir íslenska menningu því að til viðbótar við þær uppsagnir sem hér hefur þegar borið á góma kemur fram í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu að vegna niðurskurðar ríkisstjórnarinnar á stofnuninni muni þurfa að fækka fréttatímum og stytta þá, auk þess að draga úr umfjöllun um samfélagsleg málefni.

Þetta kemur fram í kjölfar gagnrýni ráðherra og þingmanna stjórnarflokkanna og raunar hreinna hótana. Ég hlýt því að spyrja hvort hér sé verið að standa við hótanirnar sem byggja á stefnu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, og takmarka á sama tíma möguleika Ríkisútvarpsins til að sinna lýðræðishlutverki sínu.

Virðulegur forseti. Í ágætum umræðum hér á dögunum um stöðu Ríkisútvarpsins sagði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, með leyfi forseta:

„Áhersluatriði mín í þessu máli eru þau að ég tel að öllu skipti fyrir Ríkisútvarpið að horfa til þess hvað það er sem RÚV gerir, sem markaðurinn gerir ekki […] Það er lykilatriði að tryggja breidd í efnisframboði […] Það á auðvitað að horfa fyrst og síðast á það sem markaðurinn getur ekki leyst og leysa það. Það snýr fyrst og fremst að sögu þessarar þjóðar, menningu hennar og listum þar sem má segja […] að kannski sé takmarkaður, hefðbundinn markaður fyrir slíku efni.“

Þess vegna má spyrja: Endurspeglar sú stefna sem kemur fram í dag áherslur ráðherra? Er ráðherrann sammála áherslunum í niðurskurði RÚV? Ætlar ráðherrann að beita sér fyrir auknum tekjum til RÚV af útvarpsgjaldi? Er um að ræða pólitískar hreinsanir? Endurspegla þessar aðgerðir stefnu hv. þingmanns, formanns fjárlaganefndar? Hver skyldi vera stefna og afstaða nýrrar pólitískrar stjórnar Ríkisútvarpsins?