143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart RÚV.

[15:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar litið er til ársins í ár 2013 þá stefnir í halla sem er yfir 30 milljarðar á rekstrargrunni. Ef hægt hefði verið að innheimta veiðigjaldið að fullu hefði það skilað ríkisstjórninni rétt rúmum 3 milljörðum, þ.e. ef hægt hefði verið að ná því inn. Það hefði þá reyndar verið gert með verulega alvarlegum afleiðingum fyrir efnahagskerfi landsins.

Enn og aftur: Þessi aðgerð endurspeglar þann vanda sem við stöndum frammi fyrir. Þetta er sami vandinn og við stöndum frammi fyrir í heilbrigðiskerfinu þar sem hundruð manna hafa misst vinnuna. Þetta er sami vandi og við stöndum frammi fyrir í ríkisrekstrinum öllum þegar fyrir liggur að tekjurnar duga ekki fyrir útgjöldunum. Það er þess vegna sem svo mikil áhersla er lögð á að á næsta ári verði fjárlögin í jafnvægi vegna þess að við erum búin að safna upp svo miklum skuldum, vegna þess að við höfum lagt í svo mikla þjónustu sem við höfum ekki haft efni á og tekið lán fyrir og af þeim lánum þarf að borga vexti. (Forseti hringir.) Það er það sem verið er að gera hér og það er fjarri öllu lagi að um sé að ræða nokkra þá hluti sem hv. þingmaður ýjaði að í sinni ræðu.