143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

niðurskurður fjárveitinga til RÚV.

[15:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég biðst auðvitað forláts ef þetta hefur ekki verið nógu skýrt hjá mér. Nú þegar hafa verið hafnir fundir í menntamálaráðuneytinu við Ríkisútvarpið um nýjan þjónustusamning. Það er á grundvelli laga um Ríkisútvarpið. Hvenær þeirri vinnu lýkur nákvæmlega get ég ekki alveg sagt en ég vona að það verði sem fyrst. Það skiptir máli að sú vinna sé unnin hratt og örugglega.

Enn og aftur ítreka ég að ég tel að það sé ekki neinn stórkostlegur ágreiningur í þingsal eða almennt í þjóðfélaginu um það hvert hlutverk Ríkisútvarpsins á að vera. Spurningin er hvernig því verður best sinnt en það breytir samt ekki stöðunni sem við stöndum frammi fyrir.

Ég ætla að árétta af því að þetta er auðvitað óskaplega erfitt fyrir þá einstaklinga sem missa vinnuna: Ef ég horfi aftur til ársins 2009 og skoða Landspítalann – háskólasjúkrahús þá hefur störfum þar fækkað um 256. Það er mjög alvarlegt mál og það er alvarlegt mál þegar segja þarf upp fólki á Ríkisútvarpinu. Það er alvarlegt mál þegar fólk í litlum þorpum missir vinnuna vegna þess að kvótinn fer í burtu. (Forseti hringir.) Allt er þetta alvarlegt mál. Það er (Forseti hringir.) svo klárt mál að þeir sem fyrir því verða eiga erfitt verk fyrir höndum að finna nýja vinnu. En það sem skiptir mestu máli er að efnahagslífið (Forseti hringir.) hér blómgist og að til verði ný störf fyrir þá sem hafa misst vinnuna.