143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

sameiningar heilbrigðisstofnana.

[15:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Get ég skilið svar hæstv. ráðherra þannig að enn séu til skoðunar þær hugmyndir sem heimamenn í Vesturbyggð hafa um möguleika á samlegðaráhrifum Heilbrigðisstofnunarinnar Patreksfirði og félagsþjónustu sveitarfélagsins? Eins og ég hef skilið heimamenn og forsvarsmenn sveitarfélagsins hefur því ekki verið tekið vel og beinlínis hafnað.

Ég vil minna hæstv. ráðherra á að þessu hefur verið mótmælt, ekki bara í Vesturbyggð af bæjaryfirvöldum þar heldur líka af bæjarstjórn Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Menn sjá ekki samlegðaráhrif á þessu svæði þar sem er meira og minna ófært í fimm, sex mánuði á ári og milli þessara staða. Þess vegna ítreka ég spurningu mína við hæstv. ráðherra, hvort hann telji ekki skynsamlegt að ganga í þessi verk með heimamönnum, með þeirra hugmyndir og tillögur, (Forseti hringir.) en fara ekki þvert á vilja þeirra og knýja þessi mál í gegn.